Opinn fyrir breyttu stjórnarfyrirkomulagi Sorpu

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segist opinn fyrir því að gerðar verði breytingar á stjórnarfyrirkomulagi Sorpu þannig að félagaformi væri breytt og stjórn ekki aðeins pólitískt skipuð eins og er í dag. Þetta segir hann í samtali við mbl.is, en í gær var kynnt niðurstaða skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkur sem telur alvarlega misbresti hafa orðið í upplýsingagjöf framkvæmdastjóra Sorpu til stjórnar félagsins vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi.

Sá mis­brest­ur varð þegar verk­fræðistof­an Mann­vit lagði fram nýja áætl­un um bygg­ing­una aðeins mánuði eft­ir að fimm ára áætl­un Sorpu 2019—2023 var samþykkt af stjórn í októ­ber 2018. Áætl­un Mann­vits var hálf­um millj­arði hærri en stjórn hafði ráðgert. Þá voru mistök við fjárfestingaáætlun og hærri framkvæmdakostnaður til þess að bæta þurfti 1,4 milljörðum við fjárhagsáætlun félagsins til næstu fjögurra ára.

„Niðurstöður þessarar skýrslu eru augljóslega alvarlegar. Ég er ánægður með að sjá að stjórn Sorpu er að bregðast við af yfirvegun en mjög ákveðið. Þau gáfu út í gær að meðan málið væri til meðferðar myndu þau ekki frekar tjá sig um skýrsluna efnislega og ég tek undir það,“ segir Dagur, en niðurstaðan verður kynnt borgarráði í næstu viku og segir Dagur að eftir það verði borgarráð komið með heildarmyndina.

Í skýrslunni er vísað til þess að stjórn Sorpu sé pólitískt skipuð og lagt til að settar verði skýrar hæfisreglur um þá sem eru kosnir til stjórnarstarfa og að þar ættu að sitja einstaklingar sem eru óháðir eigendum Sorpu, þ.e. sveitarfélögunum. Spurður út í afstöðu sína til þessa þáttar segir Dagur að þar sem félagaform Sorpu sé byggðarsamlag kalli breyting sem þessi á að félagaforminu sé breytt. Hann segir að þegar hann hafi farið að fullu yfir skýrsluna þurfi að taka umræðu með öðrum eigendum og sveitarstjórnarfólki af svæðinu.

Spurður út í sína eigin skoðun segist hann opinn fyrir breytingum. „Ég hef í mörg ár sagt að ég sé opinn fyrir að breyta því.“ Vísar Dagur til þess að farin hafi verið svipuð leið með Orkuveituna eftir ítarlega úttekt og mikla umræðu. Hann segir að menn hafi þar lært að ná þyrfti breiðu samkomulagi til framtíðar hjá öllum eigendum og það þyrfti einnig að vera staðan með Sorpu komi til breytinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert