„Þessi mengun yrði stoppuð strax“

Flugeldar eru fallegir en þeir menga.
Flugeldar eru fallegir en þeir menga. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ef þetta væri nánast hvað sem er annað en flugeldar væri enginn að velta þessu fyrir sér, þessi mengun yrði stoppuð strax.“ Þetta kom fram í erindi Þrastar Þorsteinssonar, prófessors í umverfis- og auðlindafræði, á Læknadögum sem haldnir eru í vikunni.

„Er mengun vegna flugelda ásættanleg?“ var yfirskrift erindisins. Þröstur sagði að nei væri stutta svarið við spurningunni.

Hann sagði að inn í þessi mál fléttist umræða um ferðamenn, hefðir og stuðning við björgunarsveitir. Samkvæmt könnunum kemur í ljós að einungis helmingur þeirra sem er á því að flugeldamengun sé slæm fyrir heilsuna kaupir minna af þeim.

Þröstur benti á að sólarhringsmeðaltal styrks svifryks eigi helst ekki að fara oft yfir 50 µg/m3. Mesta mengun sem mælst hafi í Reykjavík séu 4.000 µg/m3 á klukkustund 1. janúar 2018.

Þröstur benti á að til samanburðar hafi öskufok í kjölfar Eyjafjallajökulsgossins 2010 skert loftgæði í Reykjavík þar sem styrkurinn náði 2.000 µg/m3 á tíu mínútna kafla.

Furðulegt að tala um að allt fjúki í burtu

„Uppspretta mengunar um áramót er vel þekkt. Stundum er reynt að blanda brennum, umferð og fleiru í umræðuna en gögnin eru alveg skýr og augljós,“ sagði Þorsteinn.

Hann bætti því við að oft væri einnig talað um að veðrið og vindar feyki allri mengun í burtu. 

„Slíkt veður-lottó er furðuleg leið, auk þess að einungis eru helmingslíkur á að vindur bjargi okkur, varðandi sólarhringsmeðaltalið. Engu að síður myndast ávallt háir toppar nema mjög mikill vindur og úrkoma fari saman.“

Ef til vill ekki gott að vera úti um áramót

Þröstur benti á að Umhverfisstofnun hefði ráðlagt fólki að forðast langvarandi útiveru í kringum Eyjafjallagosið og nota grímu ef nauðsynlegt væri að dvelja úti í lengri tíma. Það mætti því velta því upp hvort almennt sé ráðlagt að vera úti um áramót.

„Alþjóðlegaheilbrigðismálastofnunin metur að loftmengun utandyra dragi árlega 3,8 milljónir manns ótímabært til dauða,“ sagði Þröstur og benti á að sambærilegar tölur fyrir Ísland væru 60 dauðsföll. Ein helsta loftmengun sem ógni Evrópu sé svifryk.

Þröstur sagði svifryk (PM10) komast inn í öndunarfæri fólks. Smæstu agnirnar (PM 2,5 og fínna) kemst niður í lungnablöðrurnar og þaðan í blóðrásarkerfið. „Magn agna í öndunarfærum barna getur verið 2-4 sinnum meira en hjá fullorðnum,“ sagði Þröstur og hélt áfram:

„Heilsuáhrifin af skammtímasvifryksmengun eru mest hjarta-, æða- og öndunarfærasjúkdómar og aukin dánartíðni,“ sagði Þröstur en 15 manns leituðu til bráðamóttöku Landspítalans vegna öndunarörðugleika áramótin 2017/18.

„Mengun um áramót er fyrirsjáanlegur atburður. Flestir sjúklingar vita að ástandið um áramót er slæmt og halda sig því inni og auka lyfjanotkun sína, en þurfa ekki að leita til læknis. Þannig er verið að auka á vanlíðan þess stóra hóps Íslendinga sem eru með lungnasjúkdóma og skerða lífsgæði þeirra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina