„Venjulegir karlar sem búa í Vesturbænum“

Þeir karlar sem beita ofbeldi eru vinir okkar, ættingjar og …
Þeir karlar sem beita ofbeldi eru vinir okkar, ættingjar og vinnufélagar, segir Drífa. mbl.is/Ómar

Meirihluti þeirra kvenna sem hefur orðið fyrir ofbeldi af hálfu maka lýsir sömu einkennum, orðnotkun og framkomu makans í sinn garð. Gjarnan er um að ræða lýsingar á öfgafullum persónueinkennum, bæði jákvæðum og neikvæðum.

Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og verkefnastýra í Kvennaathvarfinu, gerði og náði til 326 kvenna. 202 konur úr þeim hópi höfðu reynslu af ofbeldissambandi, en 124 höfðu ekki slíka reynslu. Hún kynnti niðurstöðurnar í húsakynnum Stígamóta í dag.

Alltaf fyndinn og „aðalkarlinn“

Í samtali við mbl.is tekur Drífa fram að einungis hafi verið um könnun að ræða, en niðurstöðurnar byggi engu að síður á lýsingum yfir 300 kvenna á upplifun sinni úr samböndum. Þá rími lýsingar þeirra sem höfðu reynslu af ofbeldi, á upplifun á persónuleika ofbeldismanna, við það sem fagaðilar og fræðafólk hafi tekið eftir í viðtölum sínum og rannsóknum. Um sé að ræða einkenni eins og afbrýðisemi, stjórnsemi, tortryggni og miklar skapsveiflur.

„Við báðum alla um að lýsa jákvæðum og neikvæðum einkennum og konur í rannsóknarhópnum, þær sem höfðu upplifað ofbeldi, töluðu um að makinn væri oft geggjað hress, opinn og fyndinn og væri alltaf „aðalkarlinn“, á meðan konur í samanburðahópnum lýstu makanum sem hlýjum, umhyggjusömum og traustum. Þær notuðu meira krúttleg lýsingarorð. Neikvæðu atriðin sem konur sem höfðu reynslu af heimilisofbeldi nefndu voru að hann væri trylltur í skapinu, stjórnsamur og stuttur í honum þráðurinn. Samanburðarhópurinn lýsti neikvæðum atriðum eins og óstundvísi, leti, hann væri áttavilltur og óákveðinn. Þetta voru ekki eins öfgafullar lýsingar og hjá rannsóknarhópnum.“

Ætla yfirleitt ekki að vera vondir

Drífa segir þó mikilvægt að skrímslavæða ekki þessa menn. Það geti haft neikvæð áhrif og orðið til þess að þeir leiti sér síður hjálpar eða viðurkenni vandann.

„Auðvitað eru sumir af þeim sem beita ofbeldi ógeðslegir menn, en langflestir eru venjulegir karlar sem búa í Vesturbænum, endurvinna ruslið sitt, eru flugstjórar og panta sumarbústað í Húsafelli fyrir fjölskylduna. Þetta eru vinir okkar, ættingjar og vinnufélagar,“ segir Drífa.

Þetta séu yfirleitt ekki menn sem ákveði að þeir ætli að vera vondir við konurnar sínar en það sé klárlega einhver skekkja í höfðinu á þeim sem geri það að verkum að þeim finnist í lagi að haga sér svona.

Drífa segir að sú mýta sé lífseig að þær konur sem verði fyrir heimilisofbeldi, séu ómenntaðar, illa staddar konur sem sækist jafnvel eftir ofbeldi. Það sé hins vegar síður en svo raunin og könnunin staðfesti það. „Þetta eru bara venjulegar íslenskar konur, flottar, vel menntaðar konur í fullri vinnu.“

Fyrst drottningar, svo sparkaðar niður

Konurnar sem tóku þátt voru á öllum aldri með ýmiss konar bakgrunn, en flestar þeirra sem höfðu orðið fyrir ofbeldi voru á aldrinum 31-40 ára og tæp 62% þeirra höfðu lokið háskólanámi.

Í svörum kvennanna kom fram að í upphafi sambandsins hefðu þær verið hressar, liðið vel, verið ánægðar með sig og með hlutina á hreinu, en svo breyttist líðanin þegar leið á sambandið. Í upphafi komu makarnir líka oft fram við þær eins og drottningar, svo voru þær einhvern veginn sparkaðar niður. Til að komast upp á stallinn aftur þurftu þær oft að gera ýmislegt til að þóknast makanum. „Ef þú vilt að einhverjum manni finnist þetta um þig ertu gjarnan tilbúin að gefa honum endalausa sénsa og leggja meira á þig. Þú vilt þóknast honum til að verða þessi stjarna aftur sem þú varst í byrjun.“

Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og verkefnastýra í Kvennaathvarfinu, segir mikilvægt að …
Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og verkefnastýra í Kvennaathvarfinu, segir mikilvægt að skrímslavæða ekki ofbeldismenn. mbl.is/Hari

Drífa segir þessa menn þó gjarnan gagnrýna allt sem konan gerir og gerir ekki. „Þú getur aldrei unnið — hún fer að vinna — „hva, nennir þú ekki lengur að vera heima hjá þér, alltaf í vinnunni?“ Það er bara endalaus gagnrýni sem gerir mann jafnvel kvíðinn og leiðan.“

Hún segir það einnig áhugavert hve margir gerendur eru með afsakanir á reiðum höndum. Þetta sé aldrei þeim að kenna. En svo lofi þeir því að þetta gerist ekki aftur, í því felist hins vegar ákveðin þversögn. „Hvernig getur maður lofað að gera eitthvað ekki aftur sem maður ber ekki sjálfur ábyrgð á? Þeir taka enga ábyrgð á sinni hegðun.“

Allir aðrir eru fífl og fávitar 

Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að 98% kvennanna sem höfðu reynslu af ofbeldissambandi höfðu upplifað andlegt ofbeldi, 62% líkamlegt ofbeldi, 60% kynferðisofbeldi og 54% fjárhagslegt. Alls greindu 29% kvennanna frá ofbeldi gegn börnum.

Drífa bendir á að tæplega 400 konur leiti í Kvennaathvarfið á hverju ári og að bara á Landspítalann leiti um 150 konur á ári með áverka vegna heimilisofbeldis. Þær tölur ná þó bara yfir þær sem segja skýrt frá því að gerandinn í ofbeldisverki, sem er ástæða komu á spítalann, sé maki. Það sé aðeins lítill hópur sem segi frá og því ljóst að umfangið er gríðarlegt. Gerendur séu hins vegar í flestum tilfellum ósýnilegir.

„En konurnar sem hafa reynslu af því að búa með þessum mönnum lýsa þeim svona, eins og ég sagði áðan. Þetta er kannski nýr vinkill á Íslandi að varpa ljósi á það hver upplifun kvenna er á persónuleika þessara manna. Þetta er ekki úttekt eða læknisfræðileg skimun. Þetta eru einfaldlega skoðanir þessara kvenna og upplifun þeirra af sambandi með ákveðnum mönnum.“

Drífu finnst oft eins og hún sé að heyra sömu söguna aftur og aftur, svo sambærilegar eru lýsingar þolenda heimilisofbeldis. „Þessir menn tala til dæmis oft um að allir aðrir séu fífl og fávitar og að fyrrverandi konurnar þeirra séu geðveikar. Þetta heyrum við mikið í Kvennaathvarfinu. Samanburðarhópurinn kannaðist ekki eins sterklega við þessar lýsingar,“ segir hún og vísar til þess hóps sem ekki hafði hafði reynslu af ofbeldi.

Drífa tekur þó skýrt fram að ekki séu allir menn sem þessar lýsingar eigi við ofbeldismenn. Þó að A sé B sé B ekki endilega A.

Taldi eðlilegt að pabbar lemdu mömmur

Líkt og áður sagði eru gerendurnir í flestum tilfellum venjulegir heimilisfeður, en hvað verður til þess að þeir fara að beita ofbeldi? Drífa segir skýringanna að leita í samfélaginu.

„Þessir menn fæðast ekki ofbeldismenn. Því þarf að skoða hvað það er í samfélaginu sem gerir þá að ofbeldismönnum. Mögulega er einn þáttur að alast upp á ofbeldisheimili,“ segir Drífa.

„Maður getur velt fyrir sér hvernig það er að alast upp á heimili þar sem pabbi er afbrýðisamur, tortrygginn og stjórnsamur. Finnst mamma vera heimsk, geðveik, lauslát drusla. Að alast upp þar sem pabbinn ræður öllu og mamman engu. Það er algjör mýta að börn heyri ekki og verði ekki vitni að ofbeldinu, séu sofandi og þar fram eftir götunum.“

Drífa segir því mega spyrja hvernig einstaklinga sé verið að búa til á svona heimilum. „Það er bara þannig, því miður, að þegar barn elst upp á ofbeldisheimili og heldur að það sé eðlilegt og í lagi að fólk sé öskrandi og takandi brjálæðisköst, þá hefur það áhrif. Að upplifa að sá sem öskrar hæst og hræðir mest, hann vinni. Hvernig á barn að vita að þetta sé ekki normið?“ Drífa nefnir dæmi um 12 ára dreng sem kom með móður sinni í Kvennaathvarfið og spurði hvort það væri ekki eðlilegt að allir pabbar lemdu allar mömmur. „Börnin vita ekki betur. Hvar eiga þau að fá fræðslu um að þetta sé ekki eðlilegt og hvar eiga þau að fá fræðslu um hvað eru eðlileg samskipti í nánum samböndum?“

mbl.is