Vonskuveður og slæm færð víða

Kort/Veðurstofa Íslands

Vonskuveður er víða á landinu og fjölmargar leiðir ófærar eða illfærar. Allt millilandaflug sem og innanlandsflug liggur niðri og viðvaranir í gildi á öllum spásvæðum á vesturhelmingi landsins vegna hríðar. Óvissustig er á Hellisheiði og Þrengslum og má búast við lokun fljótlega.

Stífur útsynningur, 15-25 m/s, er á öllu landinu með éljagangi um landið vestanvert en léttskýjað austan til. Gular viðvaranir eru í gildi á öllum spásvæðum á vesturhelmingi landsins vegna hríðar og ekki loku fyrir það skotið að ferðalög milli landshluta geti orðið erfið á því svæði, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar hefur verið unnið að hreinsun gatna í nánast alla nótt. Færðin er þokkaleg enda ekki mikil ofankoma. Aftur á móti er mikil veðurhæð og blint vegna éljagangs. Vert er að hvetja fólk til að fara í varlega í umferðinni þegar lagt er af stað í vinnu eða skóla. 

Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum er mjög takmarkað skyggni á Reykjanesbraut og víðar í umdæminu og nauðsynlegt að fara varlega. Öllu flugi til og frá Keflavíkurflugvelli hefur annaðhvort verið aflýst eða seinkað vegna veðurs. Hið sama á við um innanlandsflug. 

Á höfuðborgarsvæðinu er suðvestanhríð og var sett á gul viðvörun klukkan 06:20 í morgun og gildir hún til klukkan 15:00. „Suðvestanhvassviðri eða -stormur með vindhraða á bilinu 18-23 m/s. Talsverður éljagangur með lélegu skyggni og hálka á vegum og stígum. Fólki er bent á að sýna varkárni.“

Á Suðurlandi tók gul viðvörun gildi á miðnætti og gildir til 15:00. „Suðvestanhvassviðri eða -stormur með vindhraða á bilinu 18-23 m/s. Búast má við talsverðum éljagangi með skafrenningi og lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Líkur á samgöngutruflunum og lokunum á vegum, einkum á fjallvegum.“

Við Faxaflóa hefur gul viðvörun gilt frá klukkan 22 í gærkvöldi og gildir til klukkan 18:00. „Hvassviðri eða stormur með vindhraða á bilinu 18-23 m/s. Búast má við talsverðum éljagangi með skafrenningi og lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Líkur á samgöngutruflunum og lokunum á vegum, einkum fjallvegum.“

Við Breiðafjörð tók gul viðvörun gildi klukkan 21:00 og gildir hún til 19:00. „Hvassviðri eða stormur með vindhraða á bilinu 18-25 m/s. Búast má við talsverðum éljagangi með skafrenningi og lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Samgöngutruflanir og lokanir á vegum eru líklegar, einkum á fjallvegum.“

Á Vestfjörðum tók gul viðvörun gildi klukkan 21 í gærkvöldi og gildir til 20. „Hvassviðri eða stormur með vindhraða á bilinu 18-25 m/s. Búast má við talsverðum éljagangi með skafrenningi og lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Samgöngutruflanir og lokanir á vegum eru líklegar, einkum á fjallvegum.“

Strandir og Norðurland vestra - suðvestanhríð (gult ástand) 22. jan. kl. 21:00 – 23. jan. kl. 20:00. „Hvassviðri eða stormur með vindhraða á bilinu 18-25 m/s. Búast má við talsverðum éljagangi með skafrenningi og lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Samgöngutruflanir og lokanir á vegum eru líklegar, einkum á fjallvegum.“

Gul viðvörun er í gildi á miðhálendinu og gildir til miðnættis. „Hvassviðri eða stormur með vindhraða á bilinu 18-25 m/s. Einnig má búast við talsverðum éljagangi með skafrenningi og mjög lélegu skyggni. Slæmt ferðaveður. Aðstæður fyrir ferðamenn geta verið varhugaverðar.“

Í nótt mun svo draga hægt úr vindi og morgundagurinn mun heilsa flestum landsmönnum með hægri breytilegri átt. Stöku él verða þó vestanlands fram undir hádegi en birtir til er líður á daginn. Eftir hádegi verður orðið hæglætisveður á öllu landinu en það verður þó skammvinn stund milli stríða því von er á lægð með stífa austanátt annað kvöld með snjókomu í fyrstu en síðar slyddu og rigningu með suður- og vesturströndinni þar sem hitastig mun ná að rísa yfir frostmark. Helgarveðrið lítur þó þokkalega út, fremur hægur vindur og stöku él í öllum landshlutum.

Lokanir

mbl.is/Hari

Vegurinn um Öxnadalsheið er lokaður vegna veðurs og Vatnsskarð. Eins vegurinn um Þverárfjall. Steingrímsfjarðarheiði er lokuð og beðið með mokstur. Sama á við um Þröskulda. Súðavíkurhlíð hefur verið lokuð frá miðnætti en aðstæður verða kannaðar eftir klukkan 8. Slæmt ferðaveður er milli Akureyrar og Húsavíkur og Akureyrar og Mývatns, mjög hvasst og blint.

Vegna veðurs er skólaferðum strætisvagna Ísafjarðar úr Holtahverfi og Hnífsdal kl. 07:40 aflýst. Aðstæður verða skoðaðar á hálftíma fresti og farnar um leið og færi gefst. Ferð frá Holtahverfi 07:20 og frá Pollgötu 07:30 út í Hnífsdal er einnig aflýst. Þá er Pollgatan lokuð og vegfarendur beðnir að fara aðrar leiðir innanbæjar. Lögreglan á Vestfjörðum hvetur foreldra til að meta aðstæður vel og fara að öllu með gát. 

Veðurspáin fyrir daginn í dag og næstu daga

Suðvestan 15-25 m/s, hvassast um landið norðvestanvert. Éljagangur en léttskýjað austan til á landinu. Vestan 13-20 í kvöld. Dregur úr vindi í nótt, breytileg átt 3-10 m/s á morgun, stöku él vestanlands en léttir til er líður á daginn. Vaxandi austanátt og snjókoma undir kvöld, fyrst syðst, 13-20 m/s um landið sunnan- og vestanvert seint annað kvöld. Frost 1 til 6 stig, en frost laust með suðvesturströndinni.

Á föstudag:
Suðvestan 5-13 m/s og dálítil él, en þurrt austanlands. Frost 0 til 5 stig. Síðdegis gengur í austan 10-18 með snjókomu og síðar slyddu á sunnanverðu landinu og hægt hlýnandi veðri.

Á laugardag:
Hvöss austlæg átt og snjókoma, en slydda eða rigning sunnan til. Snýst í hægari suðlæga átt eftir hádegi. Frost 0 til 3 stig, en hiti að 4 stigum við suðurströndina.

Á sunnudag:
Breytileg átt, víða 5-10 m/s, og dálítil snjókoma eða él. Frost 0 til 5 stig.

Á mánudag:
Suðaustlæg átt, bjartviðri en stöku él. Frost um land allt. Hvessir af austri syðst um kvöldið.

Á þriðjudag:
Stíf austlæg átt og él, en úrkomulítið vestan til. Kalt í veðri.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir hæga norðaustlæga átt og bjartviðri, en stöku él við norðurströndina. Frost um allt land.

mbl.is