Birna endurkjörin formaður FÍL

Stjórn FÍL. Efri röð: Ólafur Darri Ólafsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, …
Stjórn FÍL. Efri röð: Ólafur Darri Ólafsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Bergþór Pálsson og Halldóra Geirharðsdóttir. Neðri röð: Birna Hafstein, Hjörtur Jóhann Jónsson, Eva Signý Berger og Katrín Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Birna Hafstein var einróma endurkjörin formaður Félags íslenskra leikara og sviðslistafólks til næstu þriggja ára á fundi félagsins, sem fram fór á mánudag.

Aðrir stjórnarmenn eru; Bergþór Pálsson, Eva Signý Berger, Hjörtur Jóhann Jónsson, Katrín Gunnarsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Ólafur Darri Ólafsson og Ólafía Hrönn Jónsdóttir.

Hafa áhyggjur af stöðu dansara og danshöfunda

Fram kemur í tilkynningu, að á fundinum hafi meðal annars málefni dansara verið til umræðu en félagið hefur í langan tíma reynt að ná fram viðunandi samningum fyrir dansara í leikhúsum. Það hafi verið sterk samstaða og einróma álit fundarmanna að við þetta mætti ekki lengur una og því sendi fundurinn eftirfarandi ályktun:

„Aðalfundur Félags íslenskra leikara og sviðslistafólks lýsir yfir áhyggjum sínum af stöðu dansara og danshöfunda innan þeirra sviðslistastofnana sem njóta stærstu fjárhæða úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Gróf mismunun á sér stað hvað varðar laun dansara sem njóta lakari kjara en samherjar þeirra á leiksviðinu. Það þarf að ganga til samninga við þennan hóp listamanna. Sviðslistastofnunum ber að virða menntun og reynslu í ráðningum fagfólks og mega ekki mismuna einstaklingum eftir starfssviði eða kyni. Það brýtur í bága við hlutverk stofnananna samkvæmt lögum, samþykktum og yfirlýstri jafnlaunastefnu þeirra. Jafnframt hvetur fundurinn sviðslistastofnanir til að gera kjarasamninga við danshöfunda á jafnréttisgrundvelli við aðra listræna stjórnendur sviðsetninga.“

Birna Hafstein.
Birna Hafstein. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert