Funda í dag um kórónaveiru með Isavia

mbl.is/Eggert

Sóttvarnalæknir og aðrir starfsmenn embættis landlæknis sem koma að sóttvörnum áttu símafund í morgun með heilsugæslunni og stöðufund með almannavörnum vegna kórónaveirunnar sem kom upp í Kína og hefur gætt víðar í kjölfarið.

Þetta segir Kjartan Hreinn Njálsson, upplýsingafulltrúi landlæknisembættisins, í samtali við mbl.is. Unnið sé samkvæmt aðgerðaáætlun sem sett hafi verið saman í tengslum við SARS-veiruna fyrir nokkrum árum. Verið sé að uppfæra þá áætlun í ljósi þessa nýja faraldar.

„Við munum í dag eiga fund með forsvarsmönnum Keflavíkurflugvallar til þess að fara yfir stöðuna og halda fólki á tánum og tryggja að allir séu á sömu blaðsíðu. Það gengur mjög vel,“ segir Kjartan. Fylgst sé náið með stöðunni á alþjóðavísu.

Spurður hvort grunur um smit vegna veirunnar í Finnlandi hafi sérstök áhrif á viðbrögð hér á landi segir Kjartan svo ekki vera. Menn séu einfaldlega sem fyrr á tánum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert