Leigjendur Heimavalla í „svartholi óvissunnar“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sakar Heimavelli um siðleysi.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sakar Heimavelli um siðleysi. mbl.is/​Hari

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar segir það „umhugsunarvert“ að leigufélagið Heimavellir skuli hafa selt allar 18 íbúðir sínar við Holtsflöt 4 á Akranesi, ásamt leigusamningum við þá sem þar búa, einungis nokkrum árum eftir að hafa keypt nær allar íbúðir hússins í einum pakka af Íbúðalánasjóði snemma á árinu 2016.

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi.
Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi.

Nýir eigendur fjölbýlishússins, sem eru fjárfestar, ætla að selja íbúðirnar áfram. Eftir standa átján fjölskyldur skyndilega frammi fyrir óvissu um húsnæðismál sín.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, var harðorður í garð Heimavalla í færslu á Facebook í dag og sakaði fyrirtækið um siðleysi og að skilja viðskiptavini sína eftir í „svartholi óvissunnar“ með bréfi í upphafi mánaðar. Sumir leigjendur, segir Vilhjálmur, hafa einungis tvo mánuði eftir á tímabundnum leigusamningi sínum.

„Það er með hreinum ólíkindum að Heimavellir skuli ekki hafa séð sóma sinn í því að upplýsa sína leigjendur í tíma um áform sín þannig að þeir hefðu meiri tíma en rúma tvo mánuði til finna fjölskyldum sínum þak yfir höfuðið. Eða að tryggja með afgerandi hætti betri réttarstöðu þeirra sem hafa verið leigjendur hjá Heimavöllum um langa hríð þegar gengið var frá sölu á þessum 18 íbúðum. Ekkert af þessu var gert og eru því 18 fjölskyldur skildar eftir nánast bjargarlausar „örfáum mínútum“ áður en þau eiga að tæma íbúðirnar!“ skrifar Vilhjálmur meðal annars.

Hugmyndir um viðbrögð þegar komnar fram

Sævar Freyr og Vilhjálmur hafa báðir áhyggjur af stöðunni og hafa fundað með nýjum eigendum að íbúðunum við Holtsflöt í vikunni.

„Það eru aðilar að draga sig út af þessum markaði og það er áhyggjuefni. Við höfum fundað með þeim fjárfestum sem eru að kaupa þetta húsnæði og erum að fara yfir það hvernig við getum brugðist við og reynt að hafa áhrif og stutt við þá sem mögulega eru að missa þarna leiguhúsnæði,“ segir Sævar Freyr.

Hann bætir við að strax í dag eftir að Vilhjálmur vakti athygli á málinu hafi komið hugmyndir inn á borð til hans um hvernig megi bregðast við stöðunni. Þær verði skoðaðar af bæjarins hálfu strax eftir helgi.

Sævar Freyr segir að þær hugmyndir miði að því að koma fleiri íbúðum á leigumarkað á Akranesi, en vill ekki fara nánar út í þær á þessu stigi máls.

„Það er auðvitað umhugsunarvert að Heimavellir, sem keyptu þessar eignir frá Íbúðalánasjóði, sem nú heitir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, undir þeim formerkjum að það yrði til virkur leigumarkaður [á Akranesi], að það rekstrarmódel sé hreinlega ekki að virka.

Þeir þurfa auðvitað að svara fyrir það, hvers vegna þeir eru að fara út af þessum markaði, en það er bara mjög umhugsunarvert svona örfáum árum eftir að það átti að búa til gott leiguúrræði á þessum markaði,“ segir bæjarstjórinn.

Arnar Gauti Reynisson framkvæmdastjóri Heimavalla sagði í samtali við Stundina í dag að hann gæti lítið tjáð sig um einstök viðskipti þar sem Heimavellir væru skráð félag á markaði. Þó sagði hann aðspurður að Heimavellir hefðu ekki grennslast fyrir um það hvort kaupendur að eignunum við Holtsflöt ætluðu að hafa þær áfram í útleigu eða selja.

Þó væri það svo að þeir sem keyptu fasteignir þyrftu að virða þá leigusamninga sem væru í gildi, þannig væri réttur leigjenda tryggður.mbl.is