Sala á íslensku svínakjöti minnkar heldur

Sala á kindakjöti stóð í stað á síðasta ári, miðað við árið á undan. Þótt framleiðslan minnkaði um 768 tonn er hún enn 2.600 tonnum yfir sölu innanlands. Umframframleiðslan var flutt út.

Heildarsala á íslensku kjöti á innanlandsmarkaði var tæp 29 þúsund tonn á nýliðnu ári, samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvegaráðuneytinu, aðeins liðlega hálfu prósenti meiri en árið á undan. Litlar sveiflur urðu milli kjötgreina á árinu. Þó dróst sala á svínakjöti saman um tæp 3% og sala á alifuglakjöti jókst um 2%. Stærsta breytingin hlutfallslega er í hrossakjöti þar sem fram kemur 23% aukning en lágar tölur eru á bak við þá sveiflu.

Ef litið er til þróunarinnar síðustu tíu árin sést að aukning hefur orðið í öllum kjötgreinum en langmesta aukningin hefur þó orðið í sölu á alifuglakjöti. Er hlutdeild alifuglakjöts orðin tæp 34% af kjöti sem framleitt er hér á landi.

Ekki liggja fyrir tölur um innflutning á öllu árinu en hann hefur augljóslega sífellt meiri áhrif á sölutölur. Í lok nóvember höfðu verið flutt inn um 4.400 tonn af kjöti á tólf mánaða tímabili sem er liðlega 22% aukning, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert