Uppsafnaður vandi upp á 60-65 milljarða

Uppsafnaður vandi í vegakerfinu er metinn á um 60-65 milljarða …
Uppsafnaður vandi í vegakerfinu er metinn á um 60-65 milljarða samkvæmt Vegagerðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Uppsafnaður viðhaldsvandi við vegakerfi landsins nemur um 60-65 milljörðum króna. Til samanburðar er áætlað að Vegagerðin muni setja um 17 milljarða í nýframkvæmdir og tæplega 10 milljarða í viðhald þjóðvega á þessu ári.

Vandinn er mestur þegar kemur að styrkingu og endurbótum á vegum, en þar er horft til þess að taka upp vegi, skipta um undirlag og setja betra burðarlag og að lokum breikka veginn til að gera hann öruggari. Þetta segir Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is.

Umferð aukist um 54% til 83% síðan 2005

Óskar var meðal þeirra sem fluttu erindi á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins á fimmtudaginn, en þar fór hann yfir áætlaðar framkvæmdir Vegagerðarinnar á þessu ári, auk þess að vísa til uppsafnaðs vanda og fara yfir mögulegar framkvæmdir í framtíðinni.

Samkvæmt talningu Vegagerðarinnar á 16 lykilsvæðum á landinu hefur umferð aukist um 54% upp í 83% eftir landshlutum frá árinu 2005, en aukningin hefur að mestu átt sér stað á síðustu fimm árum. Óskar segir að með aukinni umferð komi aukinn viðhaldskostnaður. Vegagerðin meti það svo að árleg þörf á viðhaldi nemi um 9,5 milljörðum, en það er svipuð tala og sett er í viðhald á þessu ári og síðustu ár. Hins vegar er uppsafnaður vandi mun stærri og í raun snjóbolti sem ýtt hefur verið á undan sér síðustu ár.

Menn eru spenntari fyrir nýframkvæmdum

Óskar segir að uppsöfnuð þörf vegna of lítils viðhalds við bundið slitlag sé um 11 milljarðar. Stærstu upphæðina er hins vegar að finna þegar kemur að því að styrkja vegi og gera á þeim endurbætur í heild. „Það er dýrt að taka upp vegi og leggja aftur,“ segir Óskar um ástæður þess að þetta hafi verið látið mæta afgangi í áraraðir. Spurður hvort frekar hefði átt að hækka fjárhæðir í viðhald en í nýjar framkvæmdir segir Óskar að sérfæðingar hjá Vegagerðinni vilji alltaf horfa til framtíðar og setja fjármuni í viðhaldsmál. „En við skiljum þrýsting frá fulltrúum á Alþingi. Menn eru spenntari fyrir nýframkvæmdum, en okkur finnst sem verkfræðingum og það er okkar skylda að benda á þessa viðhaldsþörf því hún er ekki augljós fyrir venjulegan leikmann,“ segir Óskar.

Helsti vandinn á Suðurlandinu

Mesti viðhaldsvandinn er að hans sögn þar sem mesti umferðaþunginn er og það helst að miklu leyti í hendur við það hvar helsti þungi ferðamannastraumsins er. Þannig sé það Suðurlandsundirlendið sem þurfi hvað helst á styrkingu og endurnýjun að halda að hans sögn. Svæðið teygir sig reyndar upp fyrir Borgarnes og í áttina að Akureyri og svo á Suðurlandi að Jökulsárlóni. Óskar segir mesta þörf hins vegar vera t.d. á Biskupstungnabraut, í kringum Gullna hringinn og á Laugarvatnsvegi. „Þarna keyra hundruð rúta um á hverjum degi og vegirnir brotna niður við þetta álag,“ segir hann.

Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.
Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.

Þetta eru langdýrustu verkefnin

Óskar segir þetta ekki alltaf vera augljósa viðhaldsþörf fyrir þá sem óvanir eru að huga að vegamálum.„Þeir sem eru með auga fyrir þessu sjá að vegirnir verða lélegir. Það getur verið meira hopp og hæðarbreytingar, mjórri vegir þar sem meira er brotið upp úr köntum og svo framvegis. Þetta eru langdýrustu verkefnin, þau kosta bara þetta,“ segir Óskar, en áætlað er að árleg þörf vegna þessa viðhalds sé um 3 milljarðar og er uppsafnaður vandi nú kominn upp í um 50 milljarða miðað við mat Vegagerðarinnar.

Vandinn eykst þegar honum er ýtt áfram

Með því að ýta vandanum lengra inn í framtíðina stækkar vandinn hins vegar að sögn Óskars. „Með því að setja bara nýja klæðningu á þýðir það bara að viðhaldið verður dýrara síðar meir.“

Til viðbótar við þetta er uppsafnaður vandi vegna viðhalds á malarvegum um 2 milljarðar og þá er talsverð átaksþörf vegna endurnýjunar á vegriðum á brúm landsins. Eru þær í heild 1.195 talsins, en þar af 674 einbreiðar. Segir Óskar að eðlileg viðhaldsþörf þessara mannvirkja sé um 840-1.260 milljónir á ári.

mbl.is