Varhugavert að hlaða síma á nóttunni

mbl.is/Eggert

„Við höfum lent í útköllum þar sem kviknað hefur í rúmfötum og síminn hefur þá verið í hleðslu í rúminu. Þá gjarnan við hliðina á koddanum einhvers staðar,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is.

Reglulega berast fréttir erlendis frá þar sem kviknað hefur í farsímum í hleðslu. Ekki síst ef þeir hafa verið skildir eftir í rúmum eða sófum og jafnvel undir koddum eða sængum sem geta aukið hitann á tækjunum auk þess að vera mikill eldsmatur.

Lélegar snúrur skapa meiri hættu

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Ljósmynd/Aðsend

Þannig var til að mynda greint frá því í desember að kviknað hefði í út frá farsíma í hleðslu í borginni Björgvin í Noregi. Hvatti slökkvilið borgarinnar fólk til þess að forðast í lengstu lög að skilja farsíma eftir í hleðslu án þess að eftirlit væri haft með þeim.

Margir telja vafalaust að svefntíminn sé tilvalinn til þess að hlaða farsíma og önnur tæki sem útbúin eru hleðslurafhlöðum en það getur falið í sér verulega hættu. Jón Viðar segir að þetta eigi ekki síst við þegar hleðslusnúrur eru orðnar lélegar og skemmdar.

Þannig verði hleðslusnúrur oft lélegar við tenginguna sjálfa. Fólk sé að nota þessar snúrur við allar aðstæður og þær verði smám saman lélegri. Þá geti gæði hleðslusnúra eins og annarra vara verið eins fjölbreytt og framleiðendurnir eru margir.

Nokkrum sinnum gerst hér á landi

Tilfellin hér á landi hafa að sögn Jóns Viðars ekki verið mörg til þessa en engu að síður nokkur. Sem betur fer hafi þau tilfelli ekki endað illa. Þess utan geti ýmis fleiri rafmagnstæki skapað hættu. Ekki síst eftir að gengið er til hvílu.

Greint hefur verið frá því að eldur sem kostaði móður og þrjár ungar dætur hennar lífið í Björgvin í Noregi í byrjun þessa mánaðar sé talinn hafa kviknað út frá skóþurrkara. Lögreglan telur að orsökina megi finna í bilun í skóþurrkaranum.

mbl.is