Hvasst í dag vegna djúprar lægðar á Grænlandshafi

Austanhvassviðri eða -stormur verður á landinu í dag, með snjókomu …
Austanhvassviðri eða -stormur verður á landinu í dag, með snjókomu eða slyddu í flestum landshlutum. mbl.is/Eggert

Austanhvassviðri eða -stormur verður á landinu í dag með slyddu eða snjókomu í flestum landshlutum, en rigningu syðst. Þessu veldur djúp lægð á Grænlandshafi, samkvæmt því sem fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Það lægir smám saman síðdegis í dag og rofar til, fyrst á sunnanverðu landinu, en gular hríðarviðvaranir eru þó í gildi á Breiðafirði, Vestfjörðum og Suðausturlandi fram á kvöld og ferðalöngum bent á kanna þær vel áður en lagt er af stað.

Á vef Veðurstofunnar segir að tvær smálægðir sæki að landinu á morgun og valdi breytilegum vindáttum, en vindur verður líklega fremur hægur og úrkoma varla mikil. Veður fer kólnandi næstu daga.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:
Suðaustlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og víða él. Frost 0 til 5 stig, en frostlaust með S- og A-ströndinni.

Á mánudag:
Suðaustan 8-15 m/s og snjó- eða slydduél, hvassast syðst, en úrkomulítið fyrir norðan. Hiti kringum frostmark.

Á þriðjudag:

Norðaustlæg átt, 8-13 m/s og víða dálítil él, en skýjað með köflum og úrkomulítið V-til. Kólnandi veður.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Norðlæg átt með snjókomu eða éljum á N-verðu landinu, en yfirleitt bjartviðri syðra. Frost 0 til 10 stig, minnst syðst.

Á föstudag:
Útlit fyrir vaxandi austanátt og fer líklega að snjóa S-lands.

Veðrið á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert