Lélegt skyggni á fjallvegum

Nokkrir fjallvegir eru lokaðir vegna veðurs, en þar á meðal …
Nokkrir fjallvegir eru lokaðir vegna veðurs, en þar á meðal eru Fróðárheiði, Þröskuldar og Steingrímsfjarðarheiði. Mynd úr safni, tekin á Mosfellsheiði. mbl.is/RAX

Kuldaskil ganga yfir landið í dag frá suðri til norðurs, með snjókomu og skafrenningi og lélegu skyggni á fjallvegum, samkvæmt ábendingum veðurfræðings á vef Vegagerðarinnar.

Þá er einnig hvasst, en vindhraði er á bilinu 19-23 m/s á heiðum á norðvestanverðu landinu. Það lægir og styttir upp í kvöld og nótt, fyrst syðst, en vissara er fyrir vegfarendur að fara varlega fram að því og fylgjast vel með færð á vegum.

Nokkrir fjallvegir eru lokaðir vegna veðurs, en þar á meðal eru Fróðárheiði, Þröskuldar og Steingrímsfjarðarheiði. Þá er Siglufjarðarvegur lokaður vegna óveðurs og Ólafsfjarðarvegur um Lágheiði sagður ófær.

Hellisheiði er líka enn lokuð sökum þess að þar fóru tvær rútur út af veginum í snarpri vindhviðu snemma í morgun. Hjáleið er um Þrengsli.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert