Ræða hvort Bríet geti hjálpað á Akranesi

Fulltrúar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar munu funda með Sævari Frey Þráinssyni …
Fulltrúar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar munu funda með Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra Akraneskaupstaðar á mánudag og ræða stöðuna sem upp er komin eftir að leigufélagið Heimavellir seldi 18 leiguíbúðir í bænum. mbl.is/Árni Sæberg

Fulltrúar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar munu funda með Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra Akraneskaupstaðar á mánudag og ræða stöðuna sem upp er komin eftir að leigufélagið Heimavellir seldi 18 leiguíbúðir í bænum, en frá þessu er greint á vef stofnunarinnar, sem nýlega varð til með sameiningu Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar.

Á fundinum verður meðal annars rætt um það hvort Bríet, opinbert leigufélag í eigu ríkisins, geti komið að því að fjölga leiguíbúðum á svæðinu en eitt af markmiðum með stofnun félagsins er að stuðla að virkum leigumarkaði á landsbyggðinni í samstarfi við sveitarfélög.

Fram kom í fréttum í gær að kaupendur íbúðanna, sem eru við Holtsflöt 4 á Akranesi, hygðust ekki endurnýja leigusamninga þegar þeir renna út.

Það er áhyggjuefni bæði að mati bæjarstjórans og Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, þar sem skortur er á leiguhúsnæði í bæjarfélaginu.

mbl.is