Tvær rútur fuku af veginum á Hellisheiði

mbl.is/Eggert

Tvær rútur, ein stór og önnur minni, fuku út af veginum um Hellisheiði nærri skíðaskálanum í Hveradölum rétt fyrir klukkan níu í morgun. Alls voru 38 manns um borð í rútunum tveimur, flestir erlendir ferðamenn, en lítil eða engin slys urðu á farþegunum.

Stærri rútan fór út af veginum, en valt ekki á hliðina, en sú minni mun hafa lagst á hliðina.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu varð strax ljóst og fyrstu viðbragðsaðilar komu á staðinn að staðan var ekki alvarleg, sem betur fer, en einhverjir farþeganna kvörtuðu þó undan minni háttar eymslum.

Fólkið flutt í Hellisheiðarvirkjun

Nú er búið að flytja allt fólkið í Hellisheiðarvirkjun, þar sem hlúð er að því á meðan það bíður flutnings annað. Sjúkrabílar komu á staðinn bæði frá höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi, auk björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila.

Vegurinn um Hellisheiði er lokaður sem stendur, en þar hefur verið hvasst í morgun og munu rúturnar hafa fokið út af veginum „nánast í sömu vindhviðu“.

Rúturnar fóru út af nánast í sömu vindhviðunni í grennd …
Rúturnar fóru út af nánast í sömu vindhviðunni í grennd við skíðaskálann í Hveradölum. mbl.is/Eggert
mbl.is