Alþingi hlustar ekki á ofanflóðanefnd

Halldór Halldórsson, formaður ofanflóðasjóðs og fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði.
Halldór Halldórsson, formaður ofanflóðasjóðs og fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði. Ljósmynd/Sjálfstæðisflokkurinn

Húseigendur á Íslandi borga tæpa þrjá milljarða króna árlega í ofanflóðasjóð en einungis einn milljarður er nýttur í slík verkefni. Afgangurinn rennur inn í ríkissjóð, þrátt fyrir mikilvægi þess að ráðist sé í öflugar framkvæmdir vegna varnargarða og annars. 

Þetta sagði Halldór Halldórsson, formaður ofanflóðasjóðs og fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði, í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þrátt fyrir að svo miklir fjármunir eigi að renna inn í sjóðinn er ómögulegt fyrir ofanflóðanefnd að sækja í hann.

„Ef þú opnar kistuna þá er ekkert í henni,“ sagði Halldór sem telur að ef ráðist yrði í útboð á framkvæmdunum strax ætti að vera hægt að ljúka þeim fyrir árið 2022.

Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra, var einnig gestur á Sprengisandi í morgun. Hann sat í ríkisstjórn þegar mannskæð snjóflóð féllu á Flateyri árið 1995. Sighvatur segir að framkvæmdir vegna ofanflóðavarna hafi átt að klárast árið 2010.

„Fjárveitingin átti að vera nægileg til að dekka kostnaðinn til 2010 og hún var það en var ekki notuð.“

Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra.
Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra.

„Þetta reddast“ um að kenna

Sighvatur og Halldór voru sammála um það að ástæðan fyrir því að fjármagnið sé ekki notað á þann hátt sem það ætti að vera notað sé kæruleysi og „þetta reddast“-hugarfar Íslendinga. Ekki sé hægt að kenna þekkingar- eða verktakaskorti um. 

„Íslenska þjóðin vill ekki taka ábyrgð, hún vill leysa málin með því að segja „þetta reddast“ en þegar þetta reddast ekki þá er enginn tilbúinn í að taka ábyrgðina,“ sagði Sighvatur sem telur Alþingi ábyrgt fyrir þessum misbresti, sérstaklega fjármálaráðherra og umhverfisráðherra. 

„Stjórn ofanflóðasjóðs ber ekki ábyrgð á því að verja peningum sem stjórnin fær ekki.“

Sighvatur sagði einnig að fyrir lægi að nægt fjármagn væri til til þess að greiða fyrir þær framkvæmdir sem þyrfti að ráðast í. Því spurði hann hvort afsakanlegt væri að halda áfram að innheimta þrjá milljarða á ári frá húseigendum vegna ofanflóðavarna sem nú þegar væru til fjármunir fyrir. 

Halldór og ofanflóðanefnd hafa ítrekað leitað til stjórnvalda vegna málsins. „Ef við fengjum að ráða myndum við nota allt fjármagnið. Það er vont að völdin séu hjá Alþingi sem hlustar ekki á okkur.“

Stór snjóflóð féllu í byggð á Flateyri fyrr í janúar og síðan þá hafa ofanflóðavarnir hérlendis verið mörgum ofarlega í huga.

mbl.is