„Ætlum að svara kallinu og breyta“

Inga Lind Valsdóttir, forstöðumaður tækniþróunar hjá Veitum.
Inga Lind Valsdóttir, forstöðumaður tækniþróunar hjá Veitum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veitur vinna nú að því að endurhugsa framkvæmdir í miðborginni með það að leiðarljósi að bæta aðgengi og ásýnd meðan á verktíma stendur, en tilraunaverkefnið verða endurbætur á Tryggvagötu næsta sumar. Þá er einnig til skoðunar að breyta útboðsformi þannig að horft verði til gæða og tímasetninga í staðinn fyrir einingaverð. Þetta segir Inga Lind Valsdóttir, forstöðumaður tækniþróunar hjá Veitum, í samtali við mbl.is.

Inga var meðal framsögumanna á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins á fimmtudaginn, en þar fór hún yfir fyrirhugaðar framkvæmdir Veitna á árinu. Eru þær metnar á 8,8 milljarða á árinu, en þar af eru fráveituframkvæmdir metnar á 1,7 milljarða, vatnsveituframkvæmdir á 890 milljónir, hitaveituframkvæmdir á 3,9 milljarða og rafveituverkefni á 2,23 milljarða.

Hverfisgötuframkvæmdir vendipunkturinn

Síðasta sumar komust í hámæli framkvæmdir við Hverfisgötu, en rekstraraðilar við götuna kvörtuðu undan miklum töfum á verkinu auk þess sem aðgengi og ásýnd götunnar var slæmt um langa hríð. Töldu veitingamenn þetta meðal annars hafa komið illa niður á aðsókn á staðina og lokuðu nokkrir í kjölfarið. Inga viðurkennir að þetta hafi verið ákveðinn vendipunktur hjá Veitum. „Við getum sagt það hreint út að Hverfisgatan var „nú þurfum við að fara að gera eitthvað tímapunkturinn“,“ segir hún og bætir við að stefnan sé á að enda ekki aftur í áramótaskaupinu.

Síðustu fréttir af því máli eru að rekstraraðili veitingahússins Gráa kattarins hefur farið fram á 18,5 milljóna bætur frá Reykjavíkurborg vegna framkvæmdanna.

„Það sem við viljum gera er að við ætlum að umbylta miðbæjarframkvæmdum. Fyrsta skrefið er að setjast niður og horfa á hvað við höfum verið að gera. Þess vegna minntist ég á skaupið. Ætlum að horfa á þetta með augum viðskiptavinanna algjörlega frá fyrstu hendi? Með rekstraraðilum, íbúum og síðan hvernig við ætlum að vinna með verktakanum,“ segir Inga. Hingað til hafi Veitur unnið miðbæjarframkvæmdir á hefðbundinn hátt eins og með aðrar framkvæmdir.

Bætt aðgengi, lægri girðingar og betri upplýsingar

Hún segir að meðal þess sem verði skoðað sé hvað fari mest fyrir brjóstið á rekstraraðilum og íbúum þegar unnið sé á svæðinu og hvernig hægt sé að vinna með svæðinu meðan á framkvæmdum stendur. Vísar hún þar til þess að miðbærinn sé miðpunktur sem ferðamenn sæki mikið í.

Framkvæmdir á Hverfisgötu komust í hámæli í fyrra og segir …
Framkvæmdir á Hverfisgötu komust í hámæli í fyrra og segir Inga að það hafi verið ákveðinn vendipunktur hjá Veitum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurð út í hvaða atriða sé verið að horfa til í þessu samhengi nefnir Inga að aðgengi sé númer eitt, tvö og þrjú. Slíkt þurfi að bæta mikið og verði lögð áhersla á í framtíðarverkefnum. Þá segir hún að ákall hafi verið um að lækka girðingar og jafnvel að gera framkvæmdasvæði áhugaverð, t.d. með því að gera göngubrú yfir skurði þannig að íbúar svæðisins geti fylgst með. Þá þurfi upplýsingagjöf um verkið og þar með væntingastjórnun að vera nákvæmari.

BMX-hjólabraut á menningarnótt?

Inga segir að erlendis séu víða miðsvæðis kröfur um að setja upp eins konar veggfóður þar sem verktakar setja jafnvel mynd af því húsi sem er verið að byggja. Slíkt gæti komið til greina hér, þótt framkvæmdir Veitna séu alla jafna ekki húsbyggingar. Þá sagði hún að hægt væri að vinna betur með svæðinu og nefndi sem hugmynd sem hún væri með að gera verksvæði að BMX-hjólabraut yfir menningarnótt þegar stór hluti þjóðarinnar kemur niður í miðbæinn. Þannig gæti verksvæðið í raun orðið að aðdráttarafli.

Skoða breytt útboðsform

Þá kynnti Inga á ráðstefnunni að Veitur væru að horfa til þess að breyta um útboðsform þegar kæmi að miðbæjarframkvæmdum. Í dag segir hún að 94% opinberra útboða séu venjuleg fastverðstilboð. Þar er gerð kostnaðaráætlun með verkþáttum og boðið ákveðið verð í þá. „En svo eru til leiðir þar sem horft er til þess að verkið sé klárt og í ákveðnum gæðum. Við getum stillt því upp í vörður án þess að þrasa um einingarverð,“ segir Inga.

„Við höfum ekki farið þessa leið hingað til, en erum að skoða hana,“ segir hún og bætir við að heilmikil sóun sé í núverandi ferli. Líklega verði gerð einhver mistök við að færa sig yfir, en það verði lært af þeim og ætlunin sé að svara kallinu og breyta til.

Tryggvagatan verður tilraunverkefnið

Ráðast átti í framkvæmdir við Tryggvagötu í fyrra, en því var frestað til þessa árs. Inga segir að hönnun hafi verið til staðar með gamla laginu, en nú sé til skoðunar að breyta því í nýja lagið og þá væri hægt að giska á útboð í lok mars og svo framkvæmdir í sumar. Þannig segir hún að Tryggvagatan verði tilraunaverkefni með nýtt fyrirkomulag með ásýnd, aðgengi, framkvæmd og tæknihlið og hún vonist til að einnig verði hægt að gera þar tilraun með útboðshliðina.

Spurð út í hvort þessar breytingar verði til þess að auka kostnað segir hún að  að þrátt fyrir auknar kröfur um ásýnd og aðgengi telji hún að hægt sé að komast langt með að vinna niður þann mögulega kostnað með betra skipulagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert