„Loks virðist kærkomið hlé á óveðurslægðum“

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það verði „rólegheitaveður fram eftir …
Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það verði „rólegheitaveður fram eftir vikunni“, en veðurspár verði „ótryggar þegar nær dregur helgi“. Því sé um að gera að njóta janúarveðursins á meðan það er til friðs. mbl.is/Eggert

„Loks virðist kærkomið hlé á óveðurslægðum, sem hrellt hafa okkur á nýja árinu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands í dag, en þó er bent á að ákveðnir austan- og norðaustanvindar með snjókomu og éljum verði víða á landinu í dag og hvassviðri á Vestfjörðum um tíma.

Ferðalangar eru hvattir til að kanna veðurspár og ástand vega vel áður en lagt er af stað.

Vindhraði á landinu í dag verður 8-15 m/s og búist er við snjókomu með köflum á suðvestanverðu landinu, en slyddu eða rigningu suðaustanlands. Þá mun snjóa á Norður- og Austurlandi eftir hádegi og á norðvestanverðu landinu verður snjókoma og öllu hvassara, eða 13-20 m/s um tíma.

Það léttir til norðan- og austanlands í kvöld, en áfram verða él syðra og snjókoma á Vestfjörðum.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það verði „rólegheitaveður fram eftir vikunni“, en veðurspár verði „ótryggar þegar nær dregur helgi“. Því sé um að gera að njóta janúarveðursins á meðan það er til friðs.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á morgun, mánudag:
Suðaustan 8-15 og slyddu- eða snjóél, en úrkomulítið N-lands. Hiti víða kringum frostmark, en að 6 stigum syðst.

Á þriðjudag:
Austan og norðaustan 5-13 m/s og víða él, en skýjað með köflum og úrkomulítið S- og V-lands. Frost 0 til 5 stig.

Á miðvikudag:
Norðaustlæg átt, él norðanlands en yfirleitt bjartviðri sunnan heiða. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag og föstudag:
Norðlæg átt með snjókomu eða éljum, en þurrt að kalla S-lands. Kalt í veðri.

Á laugardag:
Útlit fyrir hæga breytilega átt með úrkomulitlu og köldu veðri.

Veðrið á mbl.is

mbl.is