Með glæpaþáttablæti

Þóra Hilmarsdóttir leikstjóri.
Þóra Hilmarsdóttir leikstjóri. Ljósmynd/Saga Sig

„Mér þótti þetta strax mjög áhugavert verkefni. Glæpasögur og glæpaþættir í sjónvarpi eru eiginlega algjört blæti hjá mér og Brot rímar vel við það sem ég hef sjálf verið að gera; dimmur heimur og blóð,“ segir Þóra Hilmarsdóttir, sem leikstýrir tveimur næstu þáttum af glæpaseríunni Broti sem sýndir verða á RÚV í kvöld og næsta sunnudag.

Þóra kom inn í leikstjórateymið nokkrum mánuðum áður en tökur hófust ásamt Þórði Pálssyni, sem á hugmyndina að þáttunum, og Davíð Óskari Ólafssyni. „Ég þekkti Davíð en ekki Þórð. Við sátum saman þrjú í herbergi í heilan mánuð og réðum ráðum okkar. Þórður lagði línurnar ásamt Árna Filippussyni tökumanni og við veltum þessu fram og til baka fyrir okkur. Við smullum strax saman og samvinnan var mjög þægileg. Sem leikstjóri er maður oft að paufast í sínu horni og þess vegna var mjög gaman að vinna svona náið með fleiri leikstjórum; heyra skoðanir þeirra og kynnast ólíkum verkferlum,“ segir Þóra. 

Úr Broti.
Úr Broti.


Henni þótti ekki síðra að vinna með leikurunum sem hún segir í mjög háum gæðaflokki og nefnir aðalleikarana tvo, Nínu Dögg Filippusdóttur og Björn Thors, sérstaklega í því sambandi. „Þau eru bæði á heimsmælikvarða.“

Fjórir þættir af átta eru nú að baki og kveðst Þóra hafa fengið góð viðbrögð frá áhorfendum. „Ég heyri ekki annað en að fólk sé jákvætt og spennt. Það skemmtilega við að sýna svona seríu á Íslandi er að allir eru að horfa og spjalla síðan saman um gang mála heima í stofu, á kaffistofunni í vinnunni, í ræktinni eða á Twitter. Það er ákaflega séríslenskt. Fyndnast við þetta er að fólk sé að horfa og „live-tweeta“,“ segir hún og hlær. 

Nánar er rætt við Þóru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »