„Tryggingastofnun er völundarhús“

Berglind ásamt föður sínum Berghreini Guðna Þorsteinssyni sem lést úr …
Berglind ásamt föður sínum Berghreini Guðna Þorsteinssyni sem lést úr Alzheimer- sjúkdómnum fyrir tveimur árum síðan. Ljósmynd/Aðsend

„Við viljum þrýsta á breytingar og sömuleiðis hjálpa fólki sem er í þessari stöðu. Fólki sem þarf að rata í kerfinu því kerfið er ógeðslegt bákn. Tryggingastofnun er völundarhús og þú ert bara heppinn ef þú ratar. Það er ekki sjálfsagt að fólk eigi ættingja sem geta hjálpað því svo fólk er bæði að kljást við veikindi og kerfi,“ segir Berglind Berghreinsdóttir, stofnandi samtakanna Verndum veika og aldraðra.

Framhaldsstofnfundur samtakanna hefst klukkan tvö í dag. Að stofnun þeirra kemur helst fólk sem hefur slæma reynslu af íslensku heilbrigðiskerfi og vill leggja sitt af mörkum svo ástandið batni.

„Það er komið rúmlega nóg og við ætlum að gera okkar til þess að stoppa þetta,“ segir Berglind. Hún á sjálf erfiða sögu að baki.

„Málið er það að pabbi minn lést úr alzheimer fyrir tveimur árum. Í hans ferli sé ég svo skelfilega margt sem er að. Pabbi fékk ekki verstu útreiðina af því sem ég hef séð en það sem maður hefur séð á maður ekki að þurfa að sjá. Við vorum alltaf á staðnum og sáum það sem fram fór og það var ekkert allt fallegt.“

Berglind ítrekar að ábyrgðin sé ekki starfsfólksins. „Ég kenni starfsfólkinu ekki um heldur ríkisstjórninni. Starfsfólkið vinnur vinnuna sína eins og það mögulega getur. Ef eitthvað gerist er skuldinni skellt á fólkið á gólfinu þótt það sé bara að reyna sitt allra besta.“ 

Hugmyndin að samtökunum spratt út frá lokuðum Facebook-hópi þar sem fólk deilir reynslusögum af heilbrigðiskerfinu í trúnaði. Tæpt ár er síðan Berglind stofnaði hópinn og eru nú um 1.600 manns í honum.

Hér er að finna viðburðinn á Facebook.

mbl.is