Dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn barni

Maðurinn var dæmdur í þriggja ára fangelsi.
Maðurinn var dæmdur í þriggja ára fangelsi. mbl.is/Þorsteinn

Landsréttur dæmdi karlmann fyrir helgi í þriggja ára fangelsi fyrir kyn­ferðis­brot gegn dótt­ur fyrr­ver­andi sam­býl­is­konu sinn­ar, en dótt­ir­in er á leik­skóla­aldri. Maðurinn var sýknaður í héraðsdómi en þar var hann hins veg­ar fund­inn sek­ur um að hafa í vörsl­um sín­um farsíma með 86 mynd­um sem sýndu börn á kyn­ferðis­leg­an hátt.

Fram kemur í dómi Landsréttar að maðurinn hafi tvívegis brotið gegn stúlkunni. 

Auk þess staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms Reykjaness yfir manninum vegna myndanna úr farsíma hans sem sýndu börn á kynferðislegan hátt.

Málið kom upp í mars fyrir þremur árum þegar móðir stúlkunnar greindi barnaverndaryfirvöldum frá áhyggjum sínum eftir að dóttir hennar hafði sagt henni frá brotum mannsins.

Maðurinn neitaði sök frá upphafi og sagði að samband hans og stúlkunnar hefði ávallt verið gott. 

Fram kemur í dómi að maðurinn hafi verið einn heima með stúlkunni þegar hann braut gegn henni. 

Foreldrar stúlkunnar, leikskólakennari og stjúpmóðir sögðust taka eftir breytingum á henni eftir brotin. Faðir hennar sagði meðal annars að hún fengi ítrekaðar martraðir eftir brotin.

Samkvæmt niðurstöðu Landsréttar var framburður mannsins að nokkru marki ótrúverðugur um atriði sem hafi þýðingu við mat á sönnun í málinu. Framburður stúlkunnar sé á hinn bóginn í megindráttum stöðugur og trúverðugur.

Því þykir komin sönnun um að maðurinn hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Maðurinn hafi nýtt sér yfirburðastöðu gagnvart stúlkunni og það traust og trúnað sem hann naut sem sambýlismaður móður hennar.

Maðurinn var dæmdur í þriggja ára fangelsi og verður gert að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Landsrétti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert