„Ef þetta er kvika er það býsna merkilegt“

Hluti gíganna í Eldvörpum á Reykjanesskaga.
Hluti gíganna í Eldvörpum á Reykjanesskaga. Ljósmynd/Ómar Ragnarsson

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, segir líklegast að landrisið á Reykjanesi sé af völdum kviku. Leyfa þurfi hlutunum að þróast betur til að menn geti áttað sig betur á því hversu mikil kvika hafi safnast þar saman.

„Ef þetta er kvika er það býsna merkilegt en það má vera að öðru hvoru verði lítil innskot þarna sem haldi jarðhitakerfinu gangandi, við vitum ekkert um það,“ segir Magnús Tumi.

Hann hafði nýlokið fundi með vísindaráði almannavarna og var að undirbúa íbúafund í Grindavík vegna stöðunnar sem er uppi eftir að ríkislögreglustjóri virkjaði óvissustig almannavarna vegna mögulegrar kvikusöfnunar rétt vestan við fjallið Þorbjörn.

Magnús Tumi Guðmundsson.
Magnús Tumi Guðmundsson. Ljósmynd/HÍ

„Viðbrögðin byggjast á því að menn vilja ekki taka neina áhættu. Við reiknum með að þetta sé kvika og kvika getur leitt til eldgoss og allt viðbragð byggist á því, af því að þetta er ekki eitthvað sem þú getur tekið sénsinn á.“

Hann bendir þó á að algengast sé að kvika safnist fyrir í jarðskorpunni og síðan gerist ekki meira. „En við verðum að miða við versta tilfelli og geta brugðist við því.“

mbl.is