Grindvíkingar þurfa að vera við öllu búnir

Fannar Jónasson bæjarstjóri og Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri settust niður …
Fannar Jónasson bæjarstjóri og Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri settust niður með blaðamanni mbl.is eftir stöðufund heimamanna í húsakynnum björgunarsveitarinnar í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er ekki útlit fyrir það að þetta sé að bera að með einhverjum bráðum hætti, en ef mál þróast áfram eins og lítur út í dag, að þetta landris haldi áfram, þá þurfum við að vera við öllu búin, en mestu máli skiptir að við séum vel upplýst og í góðu sambandi við þá sem vakta þetta,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.

mbl.is ræddi við hann og Ólaf Helga Kjartansson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, eftir „stöðufund heimamanna“ sem fram fór í Grindavík í morgun.

„Við vorum að stilla saman strengina,“ segir bæjarstjórinn, en fundurinn fór fram í húsnæði björgunarsveitarinnar Þorbjarnar. Hann sátu bæjarstjórnin, lykilstarfsmenn bæjarfélagsins, lögregla, almannavarnanefnd bæjarins auk fulltrúa frá HS Orku, HS Veitum og Bláa lóninu.

„Þetta er sá hópur sem hefur verið að vinna frá því í gærmorgun við að undirbúa það sem við þurfum að hafa tiltækt hér heima við þegar og ef þetta landris leiðir til alvarlegri viðburða,“ segir Fannar.

Mikilvægt að kynna áætlanir vel fyrir fólki

Ólafur Helgi segir að fyrst og fremst þurfi að tryggja að viðbragðið verði rétt, ef eitthvað gerist, sem vonandi verði ekki. „Það er greinilegt að það þarf að útbúa viðbragðsáætlun og rýmingaráætlun og kynna það vel fyrir fólki, í þeirri von auðvitað að það gerist ekkert. Svo eru alls konar þættir sem varða hvernig fólk kemst í burtu, hvernig á að stýra því og líka varðandi Bláa lónið,“ segir lögreglustjórinn.

Fannar segir mjög gott að vita til þess að HS …
Fannar segir mjög gott að vita til þess að HS Orka og HS Veitur séu, rétt eins og Veðurstofa Íslands, að auka vöktun og mælingar hjá sér. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bæjarstjórinn grípur orðið: „Þar geta verið á annað þúsund manns á hvaða tíma sem er, þannig að það er ekki bara að rýma bæinn hér eða hluta hans, heldur að koma ferðamönnum í öruggt skjól sem þar kunna að vera og svo þarf að huga að starfsmönnum HS Orku.“

Aukin vöktun hjá HS Orku og HS Veitum

Fannar segir að HS Orka og HS Veitur séu mjög mikilvæg fyrirtæki fyrir Grindvíkinga, enda sjá þau um að útvega bæði kalt og heitt vatn til bæjarins. Fulltrúar fyrirtækjanna greindu frá því á fundinum að þar væri búið að gera áætlanir um viðbrögð við landrisinu, verið sé að auka mælingar og vöktun, fjölga GPS-mælum. „Það er mjög gott að vita til þess,“ segir bæjarstjórinn.

Bæta við lögreglubíl í Grindavík

Lögregla mun auka viðbúnað sinn í Grindavík vegna óvissunnar sem nú er uppi. Ólafur Helgi segir að einn auka lögreglubíll verði öllum stundum í Grindavík, til viðbótar við þá lögreglumenn sem eru hér að staðaldri. „Það hefur líka verið rætt, en hefur þó ekki verið útrætt, að hugsanlega yrðu einhverjar sjúkrabifreiðar til taks hér ef á þyrfti að halda, en þetta er auðvitað eitthvað sem er að þróast dag frá degi,“ segir Ólafur Helgi.

Mikilvægt að fræða börnin um stöðuna

„Aðalatriðið er það að taka á þessu, eins og bæjarstjórn er að gera, með faglegum hætti og með þeim hætti að það valdi ekki óróa hjá íbúum bæjarins. Svo segi ég eins og oft áður, það á að nota skólana til þess að uppfræða börnin, þau eru oft bestu kennarar foreldranna,“ bætir lögreglustjórinn við.

Ólafur Helgi segir mikilvægt að fræða börn og ungmenni í …
Ólafur Helgi segir mikilvægt að fræða börn og ungmenni í Grindavík um stöðu mála og að tekið verði faglega á málum svo íbúar bæjarins finni ekki fyrir óróleika. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Öll óvissa vekur ugg og kvíða. Þess vegna skiptir svo miklu máli að fá sem bestar, réttastar og nýlegastar upplýsingar hverju sinni. Þess vegna erum við með íbúafund klukkan 16 í dag, þar sem okkar færustu vísindamenn munu útskýra það hvað er á seyði, hvers má vænta og eins verður þarna teymi frá almannavörnum og lögregluembættinu. Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta á þennan fund, eða fylgjast með  streymi, vegna þess að ég held að upplýsingin og vitneskjan um hvað þetta þýðir fyrir okkur skipti langmestu máli,“ segir bæjarstjórinn, en íbúafundurinn í Grindavík fer fram í íþróttahúsinu Röstinni.

„Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvort hér sé um kvikuinnskot að ræða, það kann að vera að þessi breyting sé af einhverjum öðrum orsökum, en þetta er vel vaktað og það skiptir miklu máli. Við treystum á vísindamennina okkar og reynum að vera sem allra best undirbúin hér heima fyrir,“ segir Fannar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert