Jarðskjálfti 3,1 að stærð nærri Grindavík

Jarðskjálfti, 3,1 að stærð, varð klukkan 18:53, tæpa sex kílómetra …
Jarðskjálfti, 3,1 að stærð, varð klukkan 18:53, tæpa sex kílómetra frá Grindavík. Kort/Veðurstofa Íslands

Jarðskjálfti, 3,1 að stærð, varð 5,6 kílómetra norðnorðaustur af Grindavík rétt fyrir klukkan sjö í kvöld. Nokkrir eftirskjálftar hafa mælst í kjölfarið en þeir voru mun minni. 

Dagurinn hefur að öðru leyti verið rólegur hjá Veðurstofunni að sögn Bjarka Kaldalóns Fri­is, nátt­úru­vár­sér­fræðing­s á Veður­stofu Íslands, en sólarhringsvakt er hjá stofnuninni vegna óvissustigs sem ríkislögreglustjóri lýsti yfir í gær vegna mögulegrar kvikusöfnunar undir fjallinu Þorbirni norðvestur af Grindavík og landriss á Reykjanesskaga. Sam­hliða því hef­ur Veður­stofan fært litakóða fyr­ir flug á gult.

„Það er ekkert búið að gerast núna síðan skjálftinn varð, en við lesum ekkert annað í þetta en að virknin heldur áfram eins og síðustu daga,“ segir Bjarki.  

Fjöldi fólks kom sam­an á borg­ar­a­fundi í íþrótta­hús­inu í Grinda­vík …
Fjöldi fólks kom sam­an á borg­ar­a­fundi í íþrótta­hús­inu í Grinda­vík síðdeg­is, mun fleiri en skipu­leggj­end­ur fund­ar­ins bjugg­ust við, vegna landriss á Reykjanesskaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landrisið á Reykja­nesskaga hef­ur haldið áfram í dag og er hraðinn sá sami og í gær sam­kvæmt mæl­ing­um og mynd­um. Þenslan nemur þrem­ur til fjór­um milli­metr­um á dag og nálgast þrjá sentimetra. Von er á niðurstöðum nýrra mælinga í fyrramálið. Þá er verið að vinna að því að setja út fleiri GPS-mæla sem mæla landrisið á svæðinu frekar. „Einhverjir mælar voru settir upp í dag en það er ekki búið að tengja alla,“ segir Bjarki. 

Áfram verður fylgst náið með gangi mála að sögn Bjarka. „Það er alltaf sólarhringsvakt en við fylgjumst miklu betur með þessu svæði sérstaklega og ef eitthvað gerist getum við kallað á bakvaktina.“

mbl.is