Líkamsárás og tilraun til ráns

Þrír ungir menn réðust á mann um klukkan 22 í gærkvöldi í Kópavogi og kröfðu hann um peninga. Maðurinn komst undan árásarmönnunum og til félaga sinna. Málið er í rannsókn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

Tilkynnt var til lögreglu um bílveltu á Hólmsheiðarvegi á sjötta tímanum í gær. Ökumaðurinn, sem var einn í bifreiðinni, slapp ómeiddur.

Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum vímuefna á kvöld- og næturvakt lögreglunnar. 

Um klukkan 22 var bifreið stöðvuð á Fiskislóð og er ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Á öðrum tímanum í nótt var ökumaður stöðvaður á Vesturlandsvegi en hann er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Á þriðja tímanum var síðan bifreið stöðvuð á Breiðholtsbraut og er ökumaðurinn  grunaður um ölvun við akstur og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.

Á Akureyri stöðvaði lögreglan bifreið á sjöunda tímanum í gær og reyndist ökumaðurinn undir áhrifum fíkniefna og er að auki sviptur ökuréttindum. Bæði hann og farþegi bifreiðarinnar voru með fíkniefni í fórum sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert