Ný eyðublöð komi í veg fyrir mistök

Kolbrún segir mikilvægt að varpa strax ljósi á samskipti gerenda …
Kolbrún segir mikilvægt að varpa strax ljósi á samskipti gerenda og brotaþola. mbl.is/Árni Sæberg

Samskipti þolenda og gerenda á samfélagsmiðlum skipta sífellt meira máli við rannsókn kynferðisbrotamála, en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók á síðasta ári í notkun eyðublað þar sem gera skal grein fyrir slíkum samskiptum í öllum kynferðisbrotamálum sem koma inn á borð.

Á þetta nýja verklag að koma í veg fyrir að það farist fyrir að kalla eftir gögnum um rafræn samskipti, líkt og gerðist í máli sem sem dæmt var í í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudaginn. Þá var rúmlega tvítugur karlmaður sýknaður af ákæru um að hafa framið kynferðisbrot gegn 13 ára stúlku árið 2016, þegar maðurinn var sjálfur 18 ára gamall.

Manninum var gefið að sök að hafa haft samfarir við stúlkuna og látið hana hafa við sig munnmök. Sagði hann fyrir dómi að hann hefði talið stúlkuna vera 17 ára gamla og ekki orðið áskynja um raunverulegan aldur hennar fyrr en eftir kynferðisleg samskipti þeirra.

Lögregla virðist ekki hafa kallað eftir upplýsingum um rafræn samskipti brotaþola og geranda í málinu, en stúlkan sagði við skýrslugjöf að hún hefði eytt öllum Snapchat-samskiptum og SMS-samskiptum við ákærða eftir að samskiptum þeirra lauk. Í dómnum kemur fram að ekkert í rannsóknargögnum lögreglu varpi ljósi á hvort þetta hafi verið sannreynt eða hvort sími ákærða eða hliðstæð gögn hafi verið rannsökuð. Er þetta sagt óvenjulegt í ljósi þess að brotaþoli hafi sagt fyrir dómi að samskipti við ákærða hefðu hafist árið 2015. 

Strax farið yfir hvort samskipti hafi átt sér stað

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir í samtali við mbl.is að reynt hafi verið að bæta úr þessu þegar málið kom inn á borð héraðssaksóknara, en ekki hafi verið unnt að fá gögn yfir samskiptamiðla frá þeim tíma sem samskiptin áttu sér stað.

Hún segir að fyrir liggi að ekki hafi verið kallað eftir gögnunum við rannsóknina, en slíkt geti gerst og þá verði ákæruvaldið að bera hallann af því. Hún segir ýmislegt hafa breyst í verklagi lögreglu á síðustu árum og mikil áhersla nú lögð á að afla gagna af samskiptamiðlum, en getur þó ekki fullyrt að slíkar upplýsingar hefðu skipt sköpum í umræddu máli.

Nýtt verklag á að koma í veg fyrir að það …
Nýtt verklag á að koma í veg fyrir að það gleymist að kalla eftir gögnum um rafræn samskipti. Ljósmynd / Getty Images

„Það er hins vegar búið að festa það það vel í sessi í dag í þessum málaflokki að skoða þessi gögn. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til að mynda látið útbúa sérstakt eyðublað sem er notað hjá kynferðisbrotadeildinni. Þar er farið markvisst yfir það þegar koma inn kærur vegna kynferðisbrota, hvort það hafi verið einhvers konar samskipti á samskiptamiðlum. Þá fyllir fólk út hvort það hafi verið samskipti og ef svo er, hvort þau eru enn þá til og ef þeim var eytt þá er skráð hvenær þeim var eytt.“ Kolbrún segir þetta auðvelda lögreglu að meta hvort það er raunhæfur möguleiki á að endurheimta skilaboð sem hefur verið eytt.

Gögnin mega ekki vera einhliða

„Við sjáum að þessir samskiptamiðlar eru alltaf að skipta meira og meira máli almennt í brotum. Ekki síst í svona kynferðisbrotum. Þannig að það hefur mjög margt breyst á síðustu árum og það hefur verið mikill fókus á að kanna þetta strax. Við erum alltaf að sjá það betur og betur í þessum málaflokki hvað það skiptir miklu máli að fá skýra mynd af samskiptum gerenda og þolenda. Bæði í aðdraganda og eftir meint brot.“

Hún segir skipta miklu að fá þessi gögn strax og þau megi ekki vera einhliða. „Við höfum verið að leggja áherslu á að það þarf heimild bæði hjá geranda og þolanda til að fá aðgang að samfélagsmiðlum þar sem tæknideildin fer inn í forritin og speglar allt innihald. Þannig tryggjum við að við fáum alla söguna og það er ekki bara annar aðilinn að senda það sem hentar honum. Við getum þá líka staðið við að ekki sé búið að eiga við gögnin. Öll svona vinna hefur verið mikið í fókus upp á síðkastið.“

Ótrúverðugt að upplýsingar tengdar aldri hafi ekki komið fram

Þrátt fyrir að ekki sé hægt að fullyrða að gögn yfir rafræn samskipti hefðu skipt sköpum í umræddu máli bendir Kolbrún á að það geti skipt miklu máli í málum þar sem verið er að meta aldur, að hafa upplýsingar um rauntímaútlit samskiptamiðla sem viðkomandi voru að nota sín á milli. Á Facebook komi til að mynda oft fram ýmsar upplýsingar á forsíðunni, meðal annars um aldur og skóla.

Kolbrún segir þetta auðvitað ekki það eina sem hægt var að byggja á í málinu. Það sé til að mynda ótrúverðugt að brotaþoli og gerandi hafi aldrei rætt sín á milli aldurstengdar upplýsingar, hvað þau voru að gera og fleira. Þá hafi verið til myndbandsupptaka af stúlkunni frá þessum tíma sem sýndi hvernig hún leit út, en jafnaldrar hafi sagt hana geta verið eldri á meðan fullorðnir vildu alls ekki meina það. „Það eru því ekki bara þessi rafrænu samskipti sem hefðu skipt máli, en þau hefðu kannski styrkt málið. Kannski ekki. Kannski kom ekkert fram þar, við getum aldrei vitað það. En niðurstaða dómsins er sú að eins og atvik voru í málinu var ekki hægt að segja að það væri hafið yfir allan vafa að ákærða hafi mátt vera ljóst að stúlkan var þetta ung. “

Kolbrún segir málið hafa verið sent til ríkissaksóknara sem taki ákvörðun um það innan 30 daga hvort málinu verði áfrýjað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert