Óvissustig á sólarlandaferðinni

Þær Helga Þórarinsdóttir og Kristín Arnberg segjast hafa áhyggjur af …
Þær Helga Þórarinsdóttir og Kristín Arnberg segjast hafa áhyggjur af stöðu mála. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vinkonurnar Kristín Arnberg og Helga Þórarinsdóttir í Grindavík segja að þeim hafi ekki liðið vel eftir að þær heyrðu af hröðu landrisi í nágrenni bæjarins í fréttum í gær.

„Auðvitað brá manni,“ segir Helga, „þrátt fyrir að við vitum alveg hvar við búum.“ „Við erum búin að vera á skjálftavaktinni, eða ég alla vega, frá því ég flutti hingað, en þetta er svolítið stórt,“ bætir Kristín við.

„Maður hefur áhyggjur, við eigum börn hérna, barnabörn og langömmubörn, þannig að við höfum áhyggjur, auðvitað,“ segir Helga. Þetta sé ekkert grín.

Helga ætlaði sér að fara til Spánar í frí á miðvikudaginn, en hún er að spá í að hætta við það vegna óvissustigsins sem lýst hefur verið yfir. „Ég á alla mína afkomendur hér. Maður flýr ekki af hólmi,“ segir hún og hlær.

Róaðist við að heyra frá Magnúsi Tuma

„Við búum hérna og búum á þessu landi og höfum náttúrulega fengið óþægilega að finna fyrir því hérna í vetur að það er von á öllu,“ segir Kristín og vísar til óveðursins í desember og snjóflóðanna sem féllu á Vestfjörðum fyrr í þessum mánuði.

Grindavík séð úr lofti frá rótum Þorbjarnar.
Grindavík séð úr lofti frá rótum Þorbjarnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristín segir að henni hafi þó liðið betur í morgun eftir að hafa heyrt frá Magnúsi Tuma Guðmundssyni jarðeðlisfræðingi fara yfir stöðu mála í fjölmiðlum, en hann er einmitt í hópi þeirra sérfræðinga sem fara yfir stöðu mála á íbúafundi í bænum síðdegis.

Hún segist hugsi yfir því hvaða áhrif hugsanlegt gos gæti haft á atvinnustarfsemi í Grindavík og næsta nágrenni.

mbl.is