Rúta fauk út af við Bolöldu

Rúta með 45 um borð fauk út af veginum við Bolöldu, fyrir ofan Sandskeið í gærkvöldi, að sögn varðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Enginn slasaðist í óhappinu en farþegarnir voru fluttir í aðra rútu frá sama fyrirtæki. 

Vetrarfærð er í flestum landshlutum og víða verið að hreinsa vegi eftir nóttina. Á Vesturlandi er víðast hvar vetrarfærð. Þungfært er á Bröttubrekku en þæfingur á Fellsströnd, Skarðsströnd og í Álftafirði.

Víðast hvar er vetrarfærð á Vestfjörðum en þæfingur er á Hálfdán, Mikladal og Kleifarheiði, einnig á Innstrandavegi og þungfært á Ennishálsi. Vetrarfærð á öllu Austurlandi og víða snjóþekja og snjókoma. Á Suðausturlandi er vetrarfærð, snjóþekja og snjókoma, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert