Staðan svipuð og undanfarna daga

Kort/mbl.is

Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að staðan sé mjög svipuð á Reykjanesi og í gærkvöldi en um tíu jarðskjálftar mældust norðan við Grindavík frá því seint í gærkvöldi. Sá stærsti þeirra varð klukkan 23:06 en hann var af stærðinni 2,1. Upptök hans voru tæpa 2 km austan við Grindavík. Veðurstofunni hefur borist ein tilkynning um að fólk hafi orðið vart við skjálftann. Hann segir að þetta sé ekki marktæk breyting á skjálftavirkni frá því síðustu daga.

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum. Samhliða hefur Veðurstofa Íslands fært litakóða fyrir flug á gult. Íbúafundur verður haldinn í íþróttahúsinu Grindavík kl. 16 í dag þar sem vísindamenn frá Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun munu gera grein fyrir stöðunni auk fulltrúa frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Sólarhringsvakt Veðurstofunnar hefur aukið eftirlit með svæðinu. Eins verður eftirlit aukið með uppsetningu fleiri mælitækja til að vakta og greina betur framvindu atburða.

Að sögn Einars verður byrjað að setja upp fleiri mælitæki í dag á svæðinu til þess að þétta netið á þessum slóðum. 

Á vaktinni. Einar Bessi Gestsson og Kristín Jónsdóttir náttúruvársérfræðingar voru …
Á vaktinni. Einar Bessi Gestsson og Kristín Jónsdóttir náttúruvársérfræðingar voru á vaktinni á Veðurstofunni í gærkvöldi og inn í nóttina. Vel verður fylgst með landrisi í Svartsengi næstu daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Komi til eldgoss gæti þurft að flytja um 5.000 manns á brott, íbúa Grindavíkur og starfsmenn Svartsengisvirkjunar og Bláa lónsins, auk ferðamanna, að sögn Rögnvaldar Ólafssonar hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Hann segir erfitt að segja til um hve langur fyrirvari gefist til rýmingar, en hann geti verið frá nokkrum mínútum upp í klukkustundir.

Settar hafa verið upp nokkrar sviðsmyndir um mögulega þróun. Segir Rögnvaldur að líklegasta niðurstaðan sé sú að kvikusöfnun ljúki annaðhvort eða haldi áfram um skeið, án þess þó að dragi til tíðinda. Hins vegar miðist viðbragðsáætlanir við að menn búi sig undir hið versta. Önnur möguleg sviðsmynd er sú að kvikusöfnun valdi jarðskjálftavirkni með stærri skjálftum á svæðinu, allt að stærð sex. Að sögn Rögnvaldar hefðu slíkir skjálftar að öllum líkindum ekki mikil áhrif á byggingar en lausamunir gætu hreyfst og fallið úr hillum og slasað fólk. Þá gætu lagnir, til dæmis frárennslislagnir lónsins og heitavatnslagnir virkjunarinnar, farið í sundur í slíkum skjálftum. Starfsmenn HS Orku voru upplýstir um stöðu mála strax í gærmorgun og funduðu í gær með almannavörnum, lögreglu og björgunarsveitum í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð, um hugsanleg viðbrögð við rýmingu.

Þriðja sviðsmyndin er svo eldgos. Ekki hefur gosið í eldstöðinni á Svartsengi síðan á 13. öld, en litlar heimildir eru um afleiðingar þess. Að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, yrði gos á svæðinu hraungos og myndi líkjast Kröflugosum. „Þetta eru lítil og upp í meðalstór hraungos og miklu minni en gosið í Holuhrauni,“ segir hann. Kvikan myndi þá finna sér farveg neðanjarðar eftir kílómetralöngum sprungum sem liggja til norðausturs og suðvesturs, að sögn Kristínar Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni. Viðbúið er að gos gæti staðið í nokkra daga eða jafnvel vikur og myndað hraunbreiðu sem þekti um 15-20 ferkílómetra.

mbl.is