Vísindaráð almannavarna fundar

Landris hefur mælst vegna kvikusöfnunar vestan við fjallið Þorbjörn við …
Landris hefur mælst vegna kvikusöfnunar vestan við fjallið Þorbjörn við Grindavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Vísindaráð almannavarna fundar núna klukkan eitt vegna stöðunnar sem er uppi vegna óvenjumikils landriss á Reykjanesi.

Á meðal þeirra sem sitja fundinn verða Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvöktunar Veðurstofu Íslands, og Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við jarðvísindadeild Háskóla Íslands.

Þetta staðfestir Rögnvaldur Ólafsson, lögreglufulltrúi hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

„Vísindaráð almannavarna kemur að jafnaði saman tvisvar á ári en auk þess hefur ráðið verið kallað saman þegar þurfa þykir, til dæmis þegar sérstakir atburðir verða, sem valdið geta almannavarnaástandi. Slíkir atburðir eru til dæmis eldgos, jarðskjálftar, flóð, jökulhlaup, óveður og mengun,“ segir á vefsíðu almannavarna.

Ráðið kom saman nær daglega í Holuhraunsgosinu á árunum 2014 til 2015 til að fara yfir og ræða ýmsa þætti eldgossins, rannsóknir og vöktun.

mbl.is