106 dánir og yfir 4.500 smitaðir

Dauðsföllum af völdum kórónaveirunnar fjölgar hratt og er nú vitað um að 106 eru látnir. Á einum degi hefur fjöldi tilfella nýrra smita nánast tvöfaldast. Tveir Íslendingar eru í einangrun á Spáni vegna gruns um að þeir séu smitaðir af veirunni.

Í dag var greint frá því í Kína að 4.515 staðfest smit væru þar í landi en daginn áður voru þau 2.835 talsins. Enn frekar hefur verið hert á ferðatakmörkum fólks og í sumum borgum er nú skylda að bera grímur á almannafæri. 

AFP

Í gær var staðfest að fimmtugur maður hefði látist úr veirunni í Peking en hann er fyrsti íbúi höfuðborgar Kína sem deyr úr veirunni. 

Flestir þeirra sem hafa látist eru í Hubei-héraði en veiran kom upp í borginni Wuhan í héraðinu. Heilbrigðisstarfsfólk sem hefur sinnt sjúkum hefur smitast. Þeir einstaklingar sem hafa dáið hafa hingað til allir verið með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma. Um 60 hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi eftir að hafa verið haldið í einangrun og hafa jafnað sig að fullu af veikindunum. 

AFP

Ríkislögreglustjóri lýsti í gær yfir óvissustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru (2019-nCoV). Ekkert smit hefur verið staðfest á Íslandi.

Í lok desember 2019 bárust fregnir af alvarlegum lungnasýkingum í Wuhan-borg í Kína, þá af óþekktum orsökum. Í kjölfarið var staðfest að um áður óþekkt kórónaveiruafbrigði er að ræða, sem nú kallast 2019-nCoV.

Sennilega er veiran upprunnin í dýrum en hefur nú öðlast hæfileika til að sýkja menn. Staðfest er að veiran getur smitast manna á milli en óljóst er hversu smitandi hún er. Ekki er vitað hversu hátt hlutfall smitaðra fær alvarlega sýkingu eða hvaða dýr er upphaflegur hýsill veirunnar.

AFP

Kórónaveirur eru nokkuð algeng orsök kvefs og öndunarfærasýkinga almennt hjá mönnum en þegar ný afbrigði berast úr dýrum í menn er þekkt að kórónaveirusýkingar geta verið alvarlegar. Veikin hefur borist til annarra héraða Kína og út fyrir Kína með fólki með tengsl við Wuhan. Flest tilfelli utan Kína hafa komið upp í Asíu en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) hafa hvatt sóttvarnayfirvöld um heim allan til að gera ráðstafanir til að geta brugðist fljótt við ef veikin berst til fleiri landa.

AFP

Engin sérstök meðferð er til við kórónaveirusýkingum og ekki er til bóluefni gegn þessari veiki. Til að forðast smit vegna kórónaveiru, svipað og inflúensu, er mikilvægt að beita almennu hreinlæti, s.s. handþvotti og/eða handsprittun ef ekki er aðgengi að vatni og sápu. Ferðalangar á svæðum þar sem þessi veiki hefur komið upp ættu að forðast umgengni við lifandi og dauð dýr, sérstaklega dýramarkaði, og veika einstaklinga. Handhreinsun eftir snertingu við yfirborð sem margir koma við, s.s. á flugvöllum, getur einnig dregið úr smithættu. 

AFP

Sóttvarnalæknir gerir ráð fyrir að veiran muni berast hingað til lands og því mikilvægt að grípa til ráðstafana til að hefta útbreiðslu hennar sem mest hér á landi. Engar aðgerðir munu hins vegar tryggja að veiran berist ekki hingað til lands.

Viðbrögð yfirvalda hér á landi munu beinast að því að hindra sem mest útbreiðslu veirunnar innanlands, tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir veika einstaklinga og viðhalda nauðsynlegri starfsemi innanlands. Almenningur og ferðamenn hér á landi sem telja sig hafa sýkst af veirunni eru hvattir til að hringja í síma 1700 varðandi nánari upplýsingar og hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið. Einstaklingar með grunsamlega eða staðfesta sýkingu verða settir í einangrun skv. nánari leiðbeiningum.

AFP

Í Bandaríkjunum hafa komið upp fimm staðfest tilvik og 110 sjúklingar eru undir eftirliti eða eru í rannsóknum vegna gruns um smit í 26 ríkjum landsins. Bandarísk stjórnvöld hvetja landa sína til að ferðast ekki til Kína nema að vel athuguðu máli og er ráðlagt að fara ekki til Hubei. Stefnt er að því að flytja starfsmenn sendiráðs Bandaríkjanna og sendiskrifstofa til Bandaríkjanna sem og bandaríska ríkisborgara frá Wuhan á næstu dögum. Mörg önnur ríki hafa gripið til svipaðra aðgerða eða eru með slíkt í undirbúningi. Til að mynda tilkynntu yfirvöld á Filippseyjum að hætt yrði að gefa út vegabréfsáritanir til kínverskra ferðamanna sem hygðust koma til landsins.

AFP

Samkvæmt upplýsingum frá WHO hafa 47 smit verið staðfest utan Kína en enginn hefur látist utan Kína. Nýjasta tilvikið er í Bæjaralandi í Þýskalandi en það er fjórða staðfesta tilvikið í Evrópu enn sem komið er.

Átta smit eru staðfest í Taílandi, fimm í Ástralíu, Singapúr og Taívan auk Bandaríkjanna. Fjögur í Malasíu, Suður-Kóreu og Japan, þrjú í Frakklandi og tvö í Víetnam. Eitt smit er staðfest í Nepal, Kanada, Kambódíu, Sri-Lanka, Þýskalandi og Kambódíu.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina