Herjólfur fór á hreinu rafmagni til Landeyjahafnar

Herjólfur í Landeyjahöfn. Skipið sigldi í fyrsta sinn á hreinu …
Herjólfur í Landeyjahöfn. Skipið sigldi í fyrsta sinn á hreinu rafmagni á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar í morgun. mbl.is/Sigurður Bogi

Herjólfur sigldi í fyrsta sinn á hreinu rafmagni á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar fyrir hádegi í dag. „Við fyrstu sýn lítur þetta bara vel út,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., um rafmagnssiglinguna.

Hann segir rafmagnssiglingarnar enn í „testfasa“ og að enn sé ekki er hægt að hlaða Herjólf við bryggju í Landeyjahöfn. Unnið sé að því að forrita hleðslubúnaðinn sem þar hefur verið settur upp fyrir skipið. „Góðir hlutir gerast hægt,“ segir framkvæmdastjórinn.

„Svona á næstu dögum fáum við einhverjar frekari fregnir af því hvernig þessu verkefni mun fram vinda, en alla vega þessi sigling í morgun hún var ágæt, hún gefur þægilega niðurstöðu,“ segir Guðbjartur.

Gefið var út í dag að Herjólfur myndi sigla til Landeyjahafnar næstu daga, en mikið hefur verið siglt í Þorlákshöfn í vetur vegna veðurs. „Aðstæður þar eru ágætar, það er ágætt dýpi eins og staðan er og við erum bara ánægðir með það, þegar færi gefst á að sigla í Landeyjar,“ segir Guðbjartur.

mbl.is