Sótti um til að komast á Eurovision

Stefán Eiríksson nýráðinn útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins.
Stefán Eiríksson nýráðinn útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég byrja sunnudaginn 1. mars,“ sagði Stefán Eiríksson, nýráðinn útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, í samtali við Síðdegisþáttinn á K100. Stefán hlakkar til starfsins og grínaðist með að þetta væri besta leiðin fyrir hann, sem mikinn eurovisionaðdáanda, til að komast loksins á lokakeppnina.

„Það er ótrúlega margt spennandi í gangi og mikil þróun. Það er mikilvægt að vera með allar klær úti til að halda sjó og átta sig á því hvernig hlutirnir eru að þróast,“ sagði Stefán.

Hann segir að í grunninn snúist starf útvarpsstjóra ávallt um það sama; að framleiða gæðaefni sem fólk hefur áhuga á. 

„RÚV hefur verið hluti af samfélaginu undanfarin 90 ár og verður það um ókomna tíð,“ sagði nýráðni útvarpsstjórinn.

Hann benti á að RÚV héldi vel utan um þjóðina við gleðilega atburði og líka þegar á bjátaði. „Þá þarf líka að halda vel utan um þjóðina, miðla réttum upplýsingum og tryggja að öllum líði jafn vel og kostur er.“

Stefán lætur af störfum sem borgarritari en áður var hann lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Hann kveðst ekki vera að safna titlum heldur sé hann einfaldlega ótrúlega heppinn að hafa verið treyst fyrir þessum ábyrgðarmiklu störfum í gegnum tíðina. 

„Við sjáumst náttúrlega í Rotterdam,“ sagði Logi Bergmann, annar stjórnenda Síðdegisþáttarins, glottandi þegar hann kvaddi Stefán en Eurovisionkeppnin fer fram þar um miðjan maí.

„Það var auðvitað ástæðan fyrir því að ég sótti um. Mér hefur ekki tekist að komast í úrslitakeppni Eurovision og það voru tvær leiðir: Annaðhvort að senda inn lag í keppnina og ég hugsaði að það væri aðeins minni möguleiki, ég sæki bara um þetta starf,“ sagði Stefán hlæjandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert