Ekki um kórónasmit að ræða hjá íslensku pari

Veiran kom fyrst upp í Wuhan í Kína en hefur …
Veiran kom fyrst upp í Wuhan í Kína en hefur dreifst víðar um heim og er óttast að hún geti orðið að heimsfaraldri. AFP

Par sem lagt var inn á sjúkrahús í Alicante vegna gruns um smit af kórónavírus er íslenskt. Það er hins vegar ekki smitað af vírusnum. Þetta staðfestir utanríkisráðuneytið við mbl.is. Spænskir miðlar segja parið vera 66 ára konu og 52 ára karlmann.

María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri upplýsingadeildar ráðuneytisins, segir að borgaraþjónustan hafi upplýsingar um að tveir Íslendingar hafi verið lagðir inn á sjúkrahúsið í Alicante vegna gruns um smit af vírusnum. Þá hefur nú fengist staðfest að ekki sé um kórónaveirusmit að ræða eins og fyrst var óttast. 

„Við viljum beina þeim tilmælum til Íslendinga á svæðinu að taka tillit til leiðbeininga sóttvarnalæknis og fylgja fyrirmælum stjórnvalda á svæðinu um hvert skuli leitað ef grunur um smit kemur upp,“ segir María.

Spænski miðillinn Cadenaser sagði frá málinu í gær og kom þá fram að fólkið hefði verið í fríi á Alicante þegar annað þeirra fékk hita og kvef. Var málið sett í ferli þegar í ljós kom að þau höfðu verið í Wu­h­an í Kína áður en þau komu til Spán­ar. Samkvæmt miðlinum voru þau flutt í einangrun og sýni úr þeim send til Madrídar til rannsóknar. 

Frétt Ca­denaser.

Þá vill utanríkisþjónustan benda Íslendingum í Kína á að láta vita um ferðir sínar með því að hafa samband með tölvupósti við help@mfa.is. Verður haldin skrá yfir þá sem eru þar á ferð og fólk látið vita ef ástandið breytist.

Spurð hvort utanríkisþjónustan hafi gripið til einhverra annarra ráðstafana varðandi sendirráðsstarfsmenn eða íslenska ríkisborgara í Kína og sérstaklega á svæðum þar sem vírusinn hefur komið upp segir María að svo sé ekki.

Uppfært: Þegar upphafleg frétt var skrifuð hafði ekki fengist staðfest hvort um kórónaveirusmit var að ræða. Nú hefur fengist staðfest að svo sé ekki og hefur fréttin verið uppfærð í samræmi við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert