Starfsmaður Þjóðskrár kom upp um skilríkjafals

Mennirnir átta eru grunaðir um að hafa notað skil­ríki frá …
Mennirnir átta eru grunaðir um að hafa notað skil­ríki frá nokkr­um EES-lönd­um. Starfsmaður hjá Þjóðskrá kom upp um skilríkjafalsið. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Starfsmaður Þjóðskrár Íslands kom upp um umfangsmikið skjalafals í síðustu viku en hann grunaði að skilríki átta manna væru fölsuð. Lögregla kannaði málið, handtók mennina og í ljós kom að skilríkin reyndust fölsuð. Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár, segir í samtali við RÚV að starfsmenn þurfi reglulega að sýna mikið hugrekki í málum sem þessum, sem hefur farið fjölgandi síðustu ár. 

Mennirnir framvísuðu skilríkjunum, sem gáfu til kynna að þeir væru frá löndum innan EES,  til að geta starfað hér á landi. Sex þeirra eru frá Georgíu, einn frá Túrkmenistan og einn frá Tadsíkistan. Þeir voru handteknir fyrir viku. 

Tilvikum sem varða fölsun skilríkja hefur fjölgað mikið síðustu ár. Árið 2018 voru tilvikin 45 en 37 í fyrra. Árin þar á undan voru tilvikin aðeins eitt til tvö á ári, að því er fram kom í máli Margrétar. Frá seinni hluta 2017 hefur starfsfólk Þjóðskrár fengið sérstaka þjálfun í að þekkja einkenni falsaðra skilríkja og hefur Þjóðskrá verið í nánu samstarfi við lögreglu og skilríkjasérfræðinga á Keflavíkurflugvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert