„Þarna hefði getað orðið stórtjón“

Sigurbjörn Magnússon ásamt eiginkonu sinni, Hlíf Sturludóttur, í hesthúsinu.
Sigurbjörn Magnússon ásamt eiginkonu sinni, Hlíf Sturludóttur, í hesthúsinu. mbl.is/Valgarður Gíslason

Litlu mátti muna að stórtjón yrði þegar Sigurbjörn Magnússon hæstaréttarlögmaður var að viðra sig og hestana sína við Rauðavatn síðdegis. Þar kom hann að mönnum sem sprengdu afgangstertu frá síðustu áramótum en við sprengingarnar urðu hestarnir skelfingu lostnir.

„Við komum þarna við vatnið á leiðinni vestur þegar ég sé tvo gaura við bílaplanið sem gengur í átt að vatninu; ekki langt frá því þar sem brennan var um áramótin,“ segir Sigurbjörn. 

„Ég sé að þeir eru að bauka eitthvað þarna. Við komum á feti, ég konan mín og stúlka með okkur. Svo sé ég að þeir eru að kveikja í tertu. Ég gríp í taumana og svo hefst skothríðin. Hesturinn náttúrulega stekkur í burtu en ég gat beint honum upp snjóinn í átt að Morgunblaðshúsinu,“ segir Sigurbjörn en konan hans var ekki jafn heppin:

„Konan mín datt af baki og meiddi sig á úlnlið.“

Húðskammaði menn á fertugsaldri

Sigurbjörn tók niður bílnúmer mannanna og hringdi í Neyðarlínuna af því að hann hélt að þeir væru að láta sig hverfa. 

„Síðan gat ég nú húðskammað þá og þeir voru voða lúpulegir,“ segir Sigurbjörn og bætir við að mennirnir séu á fertugsaldri.

Sigurbjörn segir að mennirnir hafi þarna verið í algjöru hugsunarleysi en þeir héldu að enginn væri á ferð við Rauðavatn. Ef til vill hafi mennirnir verið að sprengja afganga frá áramótunum.

„Ég hvet hestamenn til að vera á varðbergi þarna ef einhverjir svona eru á ferðinni. Eins hreinlega að kæra þetta, þetta er ekki hægt. Ég ætla að gera það,“ segir Sigurbjörn en samkvæmt lögum er almenn notkun á skoteldum óheimil nema á tímabilinu 28. desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum.

„Eins beini ég því til fólks að vera vakandi fyrir því og hika ekki við að hringja í lögregluna. Þarna hefði getað orðið stórtjón sem fólk er skaðabótaskylt fyrir.“

mbl.is