„Þetta er byrjað að taka aðeins í“

Ferðamenn á Íslandi.
Ferðamenn á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg

Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki eru byrjuð að finna fyrir því að kínverskir ferðamenn eru farnir að afbóka ferðir sínar hingað til lands vegna kórónaveirunnar.

„Hótelin eru farin að finna fyrir þessu. Hópferða- og afþreyingarfyrirtækin líka. Þetta er byrjað að taka aðeins í,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Í morgun var greint frá því í Kína að 4.515 staðfest smit væru þar í landi en dag­inn áður voru þau 2.835 tals­ins. Hert hefur verið enn frekar á ferðatak­mörk­um fólks og í sum­um borg­um er nú skylda að bera grím­ur á al­manna­færi. 

Jóhannes kveðst ekki hafa heildarsýn yfir hversu mikið hefur verið um afbókanir en nefnir að sérstaklega slæmt sé fyrir ferðaþjónustuna þegar hópar afbóka ferðir. Um 60% kínverskra ferðamanna sem hingað ferðast koma í hópum. Þó hefur færst í vöxt að þeir koma til Íslands á eigin vegum.  

Heilbrigðisstarfsmenn dreifa sótthreinsandi efni á rútumiðstöð í Gwangju í Suður-Kóreu.
Heilbrigðisstarfsmenn dreifa sótthreinsandi efni á rútumiðstöð í Gwangju í Suður-Kóreu. AFP

99 þúsund kínverskir ferðamenn í fyrra

Á síðasta ári komu um 99 þúsund kínverskir ferðamenn til Íslands. Að sögn Jóhannesar Þórs miðuðu spár fyrir þetta ár við að fjöldinn færi í 100 til 115 þúsund manns á þessu ári miðað við óbreytt árferði.

„Það eru ákveðnar áhyggjur uppi og ýmis fyrirtæki sjá fyrir sér að þetta geti valdið búsifjum,“ bætir hann við. Meðal annars velta menn fyrir sér hvað gerist í sumar því núna er að fara í hönd mikið bókunartímabil fyrir sumarið.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert