Þörf á „kraftaverki“ í deilunni

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fyrir miðju á fundinum hjá …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fyrir miðju á fundinum hjá ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum á nákvæmlega sama stað og við vorum og eigum fund á föstudag,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, eftir fund í kjaradeilu stéttarfélagsins við Reykjavíkurborg í dag. Fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir starfsfólks Eflingar í borginni hefjast 4. fe­brú­ar nái samn­ingsaðilar ekki sam­an fyr­ir þann tíma.

Sólveig segir að ekkert markvert hafi komið fram á fundinum og því muni það ráðast á föstudaginn hvort takist að semja áður en fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir hefjast. Formaðurinn er ekki bjartsýn á að það takist:

„Að mínu mati þyrfti kraftaverk að eiga sér stað til að einhver lausn á þessari mjög hörðu deilu yrði áður en að aðgerðum kæmi hjá okkur,“ segir Sólveig. Verk­fallið nær til starfs­fólks á leik­skól­um borg­ar­inn­ar, fyr­ir utan menntaða leik­skóla­kenn­ara, starfs­fólk hjúkr­un­ar­heim­ila, í heima­hjúkr­un og við sorp- og gatnaum­hirðu.

Efling kynnti tilboð sitt um hvernig leysa ætti kjaradeiluna í síðustu viku þar sem meðal annars kom fram að des­em­berupp­bót hækkaði úr um 97 þúsund krón­um eins og hún er núna í rúm­ar 380 þúsund krón­ur í janú­ar 2022. 

Stéttarfélagið kynnti kostnaðaráætlun í gær þar sem fram kom að kröfur Eflingar næmu fjórum bröggum. 

Sólveig segir að það hafi ekki komið nein viðbrögð við kostnaðarmatinu og engin ásættanleg viðbrögð við tilboðinu frá því í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert