Varasendir verður í Grindavík

Þorbjörn er aðgengilegt fjall og þar er mikið af fjarskiptatækjum.
Þorbjörn er aðgengilegt fjall og þar er mikið af fjarskiptatækjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikið af fjarskiptabúnaði er á fjallinu Þorbirni við Grindavík, meðal annars öryggisfjarskipti, sími og útvarp. Póst- og fjarskiptastofnun, Neyðarlínan og fjarskiptafyrirtækin fóru yfir stöðuna í gærmorgun í ljósi frétta um landris vestan við fjallið. Neyðarlínan mun koma upp neyðarsendi í Grindavík.

Þorbjörn er frekar aðgengilegt fjall og af tindi hans er gott fjarskiptaútsýni yfir Grindavík og raunar Reykjanesskagann og sjóinn umhverfis. Þar hefur því verið komið upp fjölda mastra og senda.

Þar er meðal annars búnaður fyrir neyðar- og öryggisfjarskipti fyrir land og sjó, það er að segja Tetra-kerfið og vaktstöð siglinga. GSM-sendar fjarskiptafélaganna eru þar og sendar fyrir útvarpsstöðvar og endurvarp sjónvarps fyrir Grindavík. Þá er Isavia með búnað þar vegna flugs til Keflavíkurflugvallar.

Vísindamenn hafa gert grein fyrir því að ef eitthvað meira verði úr umbrotum á svæðinu kunni það að leiða til jarðhræringa með sprungumyndun í hrauninu og í versta falli eldgoss. Ljósleiðarar og rafstrengir gætu því farið í sundur, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert