Vilja minningardag um helförina

Hliðið að útrýmingarbúðum þýskra nasista í Auschwitz í Póllandi.
Hliðið að útrýmingarbúðum þýskra nasista í Auschwitz í Póllandi. AFP

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna, hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra að tileinka 27. janúar ár hvert minningu fórnarlamba helfarar gyðinga á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Alls standa nítján þingmenn úr sex flokkum að tillögunni. 

„Með þingsályktunartillögunni er lagt til að 27. janúar ár hvert verði tileinkaður minningu fórnarlamba helfararinnar en þann dag árið 1945 frelsaði sovéski herinn fanga úr fangabúðum nasista í Auschwitz í Póllandi,“ segir í greinargerð.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bent er á að öll aðildarlönd Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) að Íslandi undanskildu minnist helfararinnar á einhvern hátt. „Helfararinnar er minnst með ýmsum hætti víða um heim, svo sem með minningarathöfnum, sýningum um sögu helfararinnar eða með sérstakri fræðslu í skólum,“ segir enn fremur.

Með því að tileinka 27. janúar minningu fórnarlamba helfararinnar megi fræða komandi kynslóðir hér á landi um afleiðingar hatursglæpa. „Þannig yrði unnt að koma í veg fyrir fordóma og aukna tíðni slíkra glæpa milli ólíkra trúar- og þjóðfélagshópa svo að viðlíka hörmungar endurtaki sig ekki. Slíkur dagur fæli í sér tækifæri til að minnast fórnarlamba helfararinnar og vinna gegn kynþáttafordómum og mismunun til að skapa friðsamara og umburðarlyndara samfélag.“

mbl.is