Áframhaldandi átak gegn lifrarbólgu C

Landspítalinn og lyfjafyrirtækið Gilead hafa framlengt samstarfssamning sinn um meðferð …
Landspítalinn og lyfjafyrirtækið Gilead hafa framlengt samstarfssamning sinn um meðferð sjúklinga með lifrarbólgu C hér á landi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landspítalinn og lyfjafyrirtækið Gilead hafa framlengt samstarfssamning sinn um meðferð sjúklinga með lifrarbólgu C hér á landi. Gilead mun áfram leggja til án endurgjalds lyfið Harvoni handa þeim sem þurfa á meðferð að halda.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef heilbrigðisráðuneytisins.

Ráðherra hefur lagt Landspítala til tæpar 30 milljónir króna vegna eftirstöðva kostnaðar við verkefnið á síðasta ári og veitt vilyrði fyrir áframhaldandi stuðningi á þessu ári og því næsta sem svarar tæpum 30 milljónum króna á ári.

Fjármunirnir fara í rekstur og utanumhald verkefnisins, birtingu á rannsóknarniðurstöðum og þátttöku í vísindaþingum.

Átak sem miðar að því að útrýma lifrarbólgu C hér á landi hófst árið 2016 með samstarfi íslenskra heilbrigðisyfirvalda og lyfjafyrirtækisins Gilead. Stjórnvöld lögðu verkefninu til sérstakt fjármagn í þrjú ár, allt að 450 milljónir króna en Gilead lagði til án endurgjalds lyf til meðferðar allra sjúkratryggðra einstaklinga sem smitaðir voru af lifrarbólguveiru C.

Þremur árum eftir að átakið hófst hafði öllum sem smitaðir voru af lifrarbólgu C verið boðin lyfjameðferð og yfir 95% þeirra sem voru með þekkt smit höfðu þegið lyfjameðferð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert