Einn maður grófst í snjóflóðinu

Snjóflóð í Móskarðshnjúkum. Björgunarsveitir og Landhelgisgæslan á vettvangi.
Snjóflóð í Móskarðshnjúkum. Björgunarsveitir og Landhelgisgæslan á vettvangi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir menn lentu í snjóflóði í vestanverðum Móskarðshnjúkum og grófst annar þeirra í flóðinu. Leit stendur yfir. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands.

Þar segir að lítið snjóflóð hafi fallið á sömu slóðum í gær, þriðjudag. „Nokkur lítil snjóflóð hafa fallið í gær og dag í Mosfelli og Skálafelli. Sýna þarf ýtrustu aðgæslu við ferðir í fjalllendi á Suðvesturlandi þar sem snjóflóð geta fallið.

Tugir björgunarsveitarmanna frá öllum björgunarsveitum höfuðborgarsvæðisins eru við leit að manninum sem grófst í flóðið, auk björgunarhunda sem aðstoða við leitina.

Snjóflóðið féll á göngu­leiðina upp í Mósk­arðshnúka.
Snjóflóðið féll á göngu­leiðina upp í Mósk­arðshnúka. mbl.is/Kristinn

„Eðli málsins samkvæmt fylgir þessu mikill mokstur af því þetta er snjóflóð, og fjöldi viðbragðsaðila er mikill af því fólk þreytist fljótt af því að moka snjó,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

Hinn maðurinn sem lenti í snjóflóðinu mun hafa sloppið nokkurn veginn ómeiddur og gerði viðbragðsaðilum viðvart, en mennirnir voru á göngu við þriðja mann. 

Mikill fjöldi björgunarfólks er á svæðinu, enda þreytist fólk fljótt …
Mikill fjöldi björgunarfólks er á svæðinu, enda þreytist fólk fljótt af því að moka snjó. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins var virkjuð vegna snjóflóðsins sem féll á fyrsta tímanum og er allt tiltækt lið björgunarsveita, lögreglu og slökkviliðs á vettvangi.

Þá er þyrla Landhelgisgæslunnar til taks á vettvangi, auk þess sem hún flutti mannskap og búnað upp í fjallið, samkvæmt upplýsingum frá Ásgeiri Erlendssyni, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert