Hlustar á KK í útvarpi og horfir á sakamálaþættina

Stefán Eiríksson tekur við starfi útvarpsstjóra 1. mars.
Stefán Eiríksson tekur við starfi útvarpsstjóra 1. mars. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ríkisútvarpið er kjölfesta í þjóðlífi og ég hlakka til starfa þar. Verkefnin eru líka spennandi og aldrei hafa verið til staðar fleiri dreifileiðir til að koma í loftið því frábæra efni sem RÚV framleiðir,“ segir Stefán Eiríksson borgarritari, sem í gær var ráðinn útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins. Við starfinu tekur hann 1. mars næstkomandi.

Stefán er lögfræðingur að mennt og var 2006 til 2014 lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Á háskólaárum sínum var hann svo í blaðamennsku, fyrst á Tímanum á árunum 1990 til 1991 og svo í íþróttafréttum á Morgunblaðinu um fimm ára skeið eftir það. 

„Auðvitað bý ég frá gamalli tíð að reynslu úr blaðamennskunni. Fjölmiðlun hefur hins vegar breyst mikið á síðustu árum með nýrri tækni. Sjálfur kem ég þó einkum að nýju starfi með reynslu af stjórnun og stefnumótun, eins og stjórn RÚV lagði áherslu á að nýr útvarpsstjóri hefði,“ segir nýi útvarpsstjórinn.

Aðspurður segist Stefán hlusta mikið á Rás 1 og hafa sérstaka ánægju af tónlistarþætti Kristjáns Kristjánssonar Á reki. Þætti Unu Margrétar Jónsdóttur Ljóðabókin syngur reyni hann sömuleiðis alltaf að ná. „Svo þarf ekki að koma á óvart að ég hef sem fyrrverandi lögreglustjóri gaman af sakamálaþáttum eins og Ófærð og Brot sem er gæðaefni, eins og auðvitað flest í dagskrá RÚV,“ segir Stefán.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert