Leita að hentugu húsnæði fyrir sóttvarnamiðstöð

Rauði krossinn vinnur að því að skoða hentugt húsnæði fyrir …
Rauði krossinn vinnur að því að skoða hentugt húsnæði fyrir sóttvarnarmiðstöð hér á landi, komi til þess að opna verði slíka vegna kórónaveirunnar. Er hún fyrst og fremst hugsuð fyrir erlenda ferðamenn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rauði krossinn vinnur að því að skoða hentugt húsnæði fyrir sóttvarnamiðstöð hér á landi, komi til þess að opna verði slíka vegna kórónaveirunnar. 

Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, staðfestir þetta í samtali við mbl.is en segir að um sé að ræða síðasta úrræði sem gripið yrði til, komi veiran til Íslands. 

„Ef að hingað myndi koma fjöldi ferðamanna sem þyrfti að vera í sóttkví og heilbrigðisstofnanir myndu ekki geta annað fjöldanum myndum við opna sóttvarnamiðstöð,“ segir hún. 

Tveir dagar eru síðan ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru. Stöðufundir eru haldnir daglega og veitir Rauði krossinn til að mynda aðstoð við þarfagreiningu vegna einangrunaraðstöðu fyrir ferðamenn í hverju sóttvarnaumdæmi. 

„Við erum að skoða heppilegt húsnæði og eigum tjöld sem gætu nýst. Það er verið að velta upp möguleikum,“ segir Brynhildur, en verkefnið er unnið í samstarfi við almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, embætti landlæknis og sóttvarnalækni. 

Yfir 130 manns hafa lát­ist af völd­um veirunn­ar og yfir 6.000 smitast, en veiran hefur breiðst út víðs veg­ar um Kína og til að minnsta kosti 16 annarra landa. Enginn hefur enn sem komið er greinst á Íslandi en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is í fyrradag að unnið sé út frá því að það gerist. 

„Þetta er fyrst og fremst til að vera undirbúin,“ segir Brynhildur um undirbúning sóttvarnamiðstöðvarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert