Sýknuð af tæplega 20 milljóna skaðabótakröfu

Hæstiréttur kvað upp sinn dóm í morgun.
Hæstiréttur kvað upp sinn dóm í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur hefur sýknað dánarbú og hálfsystkini manns af tæplega 20 milljóna króna kröfu, en þau voru í Landsrétti í maí í fyrra dæmd til greiða manninum skaðabætur vegna tjóns sem maðurinn taldi sig hafa orðið fyrir vegna sölu á tiltekinni landspildu árið 2008. Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að krafa mannsins hefði verið fyrnd. 

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, sem var kveðinn upp í dag, að Jakob Adolf Traustason hafi höfðað mál á hendur Gísla Guðfinnssyni, Maríu Guðbjörgu Guðfinnsdóttur og dánarbúi Gerðar Bjargar Guðfinnsdóttur og krafist skaðabóta vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna sölu Gísla, Maríu og Gerðar á landspildu í Flóahreppi 18. desember 2008, sem Jakob taldi tilheyra sér að tveimur þriðju hlutum.

Málið á rætur að rekja til ársins 2008

Málið átti rætur að rekja til ágreinings um eignarhald á spildu úr landi Hróarsholts sem hafði verið í eigu Guðfinns Kr. Gíslasonar en hann lést í október 2007. Guðfinnur var faðir Gísla, Maríu og Gerðar en stjúpfaðir Jakobs, að því er segir í dómi Hæstaréttar.

Í febrúar 2008 ritaði María fyrir sína hönd og Gerðar undir yfirlýsingu þar sem fallist var á að Guðfinnur hefði í dánargjöf gefið Jakobi landspilduna til eignar og hafði afsal þess efnis verið gefið út 3. maí sama ár. Degi áður en Gísli, María og Gerður fengu leyfi til einkaskipta á dánarbúi Guðfinns var landspildunni ráðstafað með skiptayfirlýsingu til þeirra þriggja að jöfnum hlut þrátt fyrir framangreinda yfirlýsingu.

Í október 2008 var spildunni svo skipt upp í tvo hluta. Gísli, María og Gerður heitin seldu Guðmundi B. Steinþórssyni minni spilduna, spildu þá sem um ræddi í þessu máli, með kaupsamningi 18. desember 2008.

Stærri hluta spildunnar höfðu María og Gerður selt Gísla 19. desember 2008 en með dómi Hæstaréttar 3. apríl 2014 í máli nr. 87/2010 var viðurkenndur eignarréttur Jakobs að tveimur þriðju hlutum þeirrar spildu. Jakob höfðaði svo mál þetta vegna minni hluta spildunnar, sem seldur hafði verið Guðmundi, með stefnu 9. október 2015.

Deilt um hvort skaðabótakrafan væri fyrnd

Ágreiningsefni málsins fyrir Hæstarétti laut einkum að því hvort skaðabótakrafa Jakobs væri fyrnd.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að virtum gögnum málsins væri fallist á það með Landsrétti að Jakob hefði eignast skaðabótakröfu á hendur Gísla, Maríu og dánarbúi Gerðar vegna fyrrnefndrar ráðstöfunar á minni spildunni þvert á rétt Jakobs samkvæmt yfirlýsingu 8. febrúar 2008 og afsali 3. maí sama ár.

Var við það miðað að krafa Jakobs um skaðabætur hefði stofnast á því tímamarki þegar eigninni var ráðstafað með fyrrnefndum kaupsamningi og fór því um fyrningu kröfunnar eftir lögum nr. 105/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. 28. gr. laganna.

Höfðaði málið rúmum sex árum eftir upphafsdag fyrningarfrestsins

Þá kom fram að Jakob hefði höfðað mál vegna stærri spildunnar á hendur Gísla með stefnu birtri 25. júní 2009 og að í málatilbúnaði Jakobs í því máli hefði hann rakið að minni spildan, sem þetta mál varðaði, hefði verið seld þriðja aðila og tilgreint í því sambandi gögn vegna þeirrar ráðstöfunar.

Hefði hann samkvæmt því í síðasta lagi við höfðun þess máls verið með nauðsynlegar upplýsingar um ætlað tjón sitt og hver hefði borið ábyrgð á því. Var því talið að krafa Jakobs hefði verið fyrnd þegar hann höfðaði málið í desember 2015 rúmum sex árum eftir upphafsdag fyrningarfrestsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert