Uppfæra áætlanir um allt land vegna veirunnar

Farþegi á lestarstöð sem tengir Hong Kong við meginland Kína …
Farþegi á lestarstöð sem tengir Hong Kong við meginland Kína með öfluga öndunargrímu og sundgleraugu til þess að verjast sýkingu. Hér á landi er verið að uppfæra áætlanir til að bregðast við því að kórónaveiran komi til landsins. AFP

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það sé mjög mikil vinna í gangi hér á landi vegna kórónaveirunnar, en í dag var ákveðið á fundi sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra að byrja að vinna eftir landsáætlun fyrir heimsfaraldur inflúensu.

Vinnan sem nú er farin í gang hérlendis miðar annars vegar að því að reyna að finna þá sem gætu hugsanlega verið að koma hingað til lands og verið sýktir eða smitaðir og huga að því „hvað eigi að gera við þá, bæði í sambandi við einangrun og sóttkví“.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Hins vegar miðast vinnan við að undirbúa hvað skuli gera ef veiran nær fótfestu hérlendis og fer að breiðast út í samfélaginu. „Við erum með leiðbeiningar til fólks um að vera ekki að fara beint á heilsugæslustöðvar eða bráðamóttökur heldur hringja fyrst í síma 1700 og fá nánari upplýsingar í gegnum ferlið,“ segir Þórólfur, en nýjustu upplýsingar um opinber viðbrögð má nálgast á vef embættis landlæknis.

Allir verða að vera tilbúnir ef og þegar veiran kemur

Vinnan fer fram víða. „Það er verið að styrkja innviðina, heilsugæslustöðvar um allt land eru að uppfæra sínar áætlanir og búa til áætlanir um hvernig þær munu fást við þetta vandamál og Landspítalinn er að uppfæra líka sínar áætlanir og gera áætlanir um hvernig hann eigi að geta tekið á móti mjög veikum einstaklingi sem þurfi að fara í einangrun,“ segir sóttvarnalæknir.

„Þetta er bara á öllum vígstöðvum sem menn eru að búa til þessi plön, því okkar áætlanir miðast við að þessi veira muni koma hingað til lands. Hvenær það verður veit enginn og auðvitað vonum við að hún muni ekki koma, það væri nú bara fínt, en við þurfum að hafa áætlanir í gangi ef hún kemur og þá þurfa allir að vera tilbúnir og það er það sem við erum akkúrat að gera núna.“

Þórólfur segir að mörg fyrirtæki og stofnanir sem tilgreind eru í landsáætlun fyrir heimsfaraldur inflúsensu þurfi að uppfæra sínar áætlanir og „gera áætlanir um það hvernig þau ætli að starfa vel komi til víðtæks faraldurs eða sýkingar og tryggja órofinn rekstur ef veikindi verða hjá starfsfólki og svo framvegis.“

„Ekki fræðilegur möguleiki að loka landinu“

Þórólfur segir það hafa verið rætt ítarlega á fundinum með almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í morgun að ekki verði hægt að grípa til aðgerða sem útiloki alfarið að veiran komi hingað til lands.

„Það er ekki fræðilegur möguleiki að loka landinu þannig að þetta muni ekki berast hingað til lands, það þyrfti að loka í fleiri, fleiri mánuði og allir sjá hvaða afleiðingar það myndi hafa fyrir íslenskt samfélag, þannig að við þurfum að grípa til annarra ráðstafana sem lágmarka áhættu sem gæti komið upp.“

Spurningar og svör varðandi kórónaveiru á vef embættis landlæknis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert