Að einhverju leyti táknrænn gjörningur

Katrín segist meðvituð um að skaðinn sem varð í Guðmundar- …
Katrín segist meðvituð um að skaðinn sem varð í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu verði ekki bættur með fjármunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eins og ég sagði í minni ræðu í þinginu, þarna erum við að tala um mál sem vonandi verður alltaf einstakt í Íslandssögunni. Þarna er um skaða að ræða sem verður ekkert bættur með fjármunum. Ég held við séum öll mjög meðvituð um það. Að minnsta kosti er ég mjög meðvituð um það. Þetta er að einhverju leyti táknrænn gjörningur sem sýnir vilja löggjafans og framkvæmdarvaldsins til að sýna yfirbót,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um bótagreiðslur í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem greiddar voru út í gær til þeirra sem sýknaðir voru í Hæstarétti og afkomenda þeirra.

Það var Fréttablaðið sem fyrst greindi frá greiðslu bótanna, en með þeim hafa lögin sem samþykkt voru á Alþingi á síðasta ári verið framkvæmd. Þau voru sett í kjölfar sýknudóms í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í Hæstarétti í september árið 2018. Með lögunum var ráðherra veitt heimild til að greiða þeim sem sýknaðir voru og afkomendum þeirra bætur.

Bætur til afkomenda Sævars hækkaðar

„Við gengum frá útgreiðslu í gær eftir að hafa átt samtöl við alla aðila. Greiðslurnar eru sambærilegar við það sem kom fram í greinargerð með frumvarpinu, fyrir utan greiðslurnar til afkomenda Sævars Ciesielski, sem hækkuðu lítillega,“ segir Katrín en bætur til þeirra voru hækkaðar eftir sjálfstætt mat forsætisráðuneytisins. „Hann hlaut auðvitað þyngsta dóminn, sat lengst í einangrun og sætti þar umtalsverðu harðræði,“ útskýrir Katrín.

„Málið var í höndum sáttanefndar og síðan sent til ríkislögmanns, og þegar frumvarpið verður að lögum þá tekur forsætisráðuneytið við málinu og við leggjum sjálfstætt mat á þá vinnu sem hafði verið unnin af hálfu þessara aðila. Okkar niðurstaða var að standa við þær tillögur nema við bættum 15 milljónum við Sævar.“

Bæturnar nema samtals 774 milljónum króna en við bættist kostnaður vegna hagsmunagæslu, um 5 prósent af greiddri bótafjárhæð. Heildarfjárhæðin er því 815 milljónir.

Einstakt mál og ekki fordæmisgefandi

Katrín segir greiðslu bótanna mikilvægan áfanga í málinu, en möguleikinn á að fara í dómsmál hafi ekki verið tekinn af aðilum málsins. Framhaldið eigi því eftir að koma í ljós.

„Ég lagði mikla áherslu á að ljúka þessu frumvarpi og ég var mjög ánægð með það hversu breið samstaða skapaðist um það í þinginu þrátt fyrir tilfinningaríka umræðu. Ég held að þetta hafi verið mikilvægt til að undirstrika vilja löggjafans til þess að segja að ríkið bæri bótaskyldu gagnvart þessum aðilum sem voru til umfjöllunar í dómi Hæstaréttar.“

Katrín bendir á að um hafi verið að ræða sérstakt frumvarp um þennan tiltekna dóm og greiðsla bótanna hafi því ekki fordæmisgildi. Hins vegar sé nú þegar eitt dómsmál í gangi og það eigi eftir að koma í ljós hvort þau verði fleiri og þá hvort dómar í þeim málum hafi fordæmisgildi. „En við litum á þetta sem mjög sérstakt mál. Það er auðvitað algjörlega einstakt og vonandi verður það einstakt.“

Bótafjárhæðirnar voru eftirfarandi: 

Albert Klahn Skaftason - 15 milljónir

Guðjón Skarphéðinsson - 145 milljónir

Kristján Viðar Júlíusson - 204 milljónir

Aðstandendur Tryggva Rúnars Leifssonar - 171 milljón

Aðstandendur Sævars Marinós Ciesielski - 239 milljónir

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert