Engin kvika en aukin skjálftavirkni

Bláa lónið er skammt frá óróleikasvæðinu.
Bláa lónið er skammt frá óróleikasvæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon
Engar vísbendingar eru um að kvika úr iðrum jarðar sé komin nálægt yfirborði jarðar nærri Grindavík. Sérfræðingar Veðurstofu Íslands í samvinnu við fólk frá HS-Orku gerðu gasmælingar við fjallið Þorbjörn og var útkoma þeirra sem að framan greinir.
Niðurstöður úr mælingum á vatnssýnum sem tekin hafa verið falla á sama veg. Sömuleiðis sýna mælingar Veðurstofunnar að verulega hefur hægt á landrisi við Þorbjörn, sem var 3-4 millimetrar á dag þegar mest var.

En á sama tíma og landris er í rénun er jarðskjálftavirkni á Grindavíkursvæðinu að aukast. Skjálfti, 3,5 að stærð, varð kl. 04.31 í fyrrinótt 1,9 km norður af Grindavík. Skömmu síðar kom annar skjálfti upp á 3,2 stig og laust fyrir kl. 16 í gær kom öflugur skjálfti og mældist styrkur hans 2,7.

Í öryggisskyni hefur Vegagerðin eflt þjónustu sína við Grindavík, þaðan sem Suðurstrandarvegur liggur til austurs og Nesvegur til vesturs út undir Reykjanestá og þaðan norður í Hafnir. Nú verður vetrarþjónustu á þeim leiðum sinnt sjö daga vikunnar, rétt eins og á þeirri meginæð sem tengir saman Grindavík og Reykjanesbraut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert