Því hærri bætur, því meiri áhrif

Ragnar segir mikla sanngirni hafa verið sýnda með greiðslu bóta …
Ragnar segir mikla sanngirni hafa verið sýnda með greiðslu bóta til málsaðila í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

„Það er að sjálfsögðu ánægjulegt fyrir skjólstæðing minn að vera búinn að fá þessa innborgun, einkum og sér í lagi með það í huga að það er ekki krafa um að hann viðurkenni það sem fullnaðargreiðslu á bótakröfu. Þar af leiðandi getur hann nýtt þetta fé nú þegar,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, sem sýknaður var í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu árið 2018 og fékk greiddar bætur úr ríkissjóði í gær.

Guðjón fékk greiddar 145 milljónir króna í bætur, en alls fengu sex málsaðilar eða aðstandendur þeirra greiddar samtals 774 milljónir króna.

„Þetta skiptir miklu máli og mér fannst mikil sanngirni sýnd með þessari aðferð forsætisráðherra,“ segir Ragnar og bendir á að tvær hliðar séu á málinu. „Það er ekki bara þessi hlið sem snýr að þeim sem verða fyrir tjóninu og frelsissviptingunni, þetta er líka aðhald að stjórnvöldum. Því hærri sem bæturnar eru, því líklegra er að stjórnvöld gæti sín, og yfirboðararnir krefjist þess af þeim sem stjórna að þeir hegði sér eins og þeir eiga að hegða sér samkvæmt lögum. Ég lít svo á að því dýrara sem það er fyrir ríkissjóð því meiri líkur séu á að þetta hafi áhrif til framtíðar.“

Guðjón Skarphéðinsson fékk greiddar 145 milljónir króna í bætur.
Guðjón Skarphéðinsson fékk greiddar 145 milljónir króna í bætur. mbl.is/Golli

Málinu er þó ekki lokið af hálfu Guðjóns því hann stefndi ríkinu á síðasta ári til greiðslu frekari bóta. Að sögn Ragnars er málið langt komið en ekki er búið að flytja það enn þá. Málalyktir gætu þó tafist eitthvað því hugsanlegt er að málið fari úr héraði í Landsrétt og þaðan í Hæstarétt. Guðjón krefur ríkið um rúman milljarð króna í bætur, en hann var frelsissviptur vegna málsins í 792 daga á sínum tíma.

„Sú krafa er byggð á dómi Hæstaréttar frá árinu 1983 í máli Magnúsar Leópoldssonar og fleiri. Grunnurinn er tekinn þaðan, svo er álag vegna illrar meðferðar, brota á réttarfarsreglum og réttindum sakborninga,“ útskýrir Ragnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert