Eiður fer á flot en óvíst með Orra

Frá Flateyrarhöfn eftir snjóðflóðið sem féll þar.
Frá Flateyrarhöfn eftir snjóðflóðið sem féll þar. mbl.is/Hallur Már

Stefnt er að því að koma stálbátnum Eiði á flot á morgun í Flateyrarhöfn. Honum var snúið við í gær en báturinn hafði legið fastur við bryggjuna á hvolfi eftir að hafa sokkið í snjóflóðinu fyrr í mánuðinum.

Í síðustu viku var Sjávarperlan hífð upp úr höfninni og henni komið á land. Þar með voru Eiður og Orri einu bátarnir eftir í höfninni. 

Að sögn Guðmundar Kristjánssonar, hafnarstjóra Ísafjarðarhafnar, var unnið við að þétta Eið í dag. Lestarlúgan var tekin af og settur á hana loftstokkur. Til stóð að setja lúguna aftur á bátinn. Eiður er mjög illa farinn og líklega ónýtur, segir hann.

Enn á eftir að taka ákvörðun um hvað gera eigi við Orra, sem strandaði. Það er eini báturinn sem var ótryggður.

Annað verkefni framundan er að koma flotbryggjunum tveimur í höfninni á sinn stað aftur með aðstoð kafara en Guðmundur segir það minniháttar mál. Önnur bryggjan er á hvolfi og þarf því fyrst að rétta hana við.

mbl.is