Ekki slys að koma með hlaðið skotvopn

Mette Yvonne Larsen, réttargæslumaður brotaþola í Mehamn-málinu, segist sátt við …
Mette Yvonne Larsen, réttargæslumaður brotaþola í Mehamn-málinu, segist sátt við ákæruna á hendur Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, maður sem komi reiður með hlaðið skotvopn á heimili hálfbróður síns megi reikna með að eitthvað gerist. Réttarhöld í málinu hefjast 23. mars. Ljósmynd/Henrik Evertsson/Advokatbladet

„Við skjólstæðingur minn teljum ákæruna rétta og mikilvægt að hún nær einnig til þeirra hótana sem voru undanfari manndrápsins,“ segir Mette Yvonne Larsen lögmaður, réttargæslumaður Elenu Undeland í Mehamn-málinu, en réttarhöld í því standa fyrir dyrum í Héraðsdómi Austur-Finmerkur í Vadsø síðustu viku marsmánaðar.

Hlutverk Larsen sem réttargæslumanns er að gæta hagsmuna skjólstæðings síns við réttarhöldin og leggja fram gögn sem snúa að þeim áhrifum sem atlagan að Gísla Þór Þórarinssyni heitnum í apríl í fyrra hefur haft á skjólstæðinginn og börn þeirra Gunnars Jóhanns Gunnarssonar sem ákærður er í málinu fyrir að skjóta Gísla Þór hálfbróður sinn í lærið með banvænum afleiðingum.

„Verði hann dæmdur samkvæmt ákæru, fyrir manndráp af ásetningi með skotvopni, mætti gera ráð fyrir 13 til 14 ára fangelsisdómi hið minnsta og verði einnig sakfellt fyrir hótanirnar gæti endanleg niðurstaða orðið 14 eða 15 ár,“ svarar Larsen, innt eftir því hverju hún spái um niðurstöðuna í héraðsdómi.

Þá máttu reikna með að eitthvað gerist

Verjandi Gunnars Jóhanns, Bjørn Gulstad, ræddi við mbl.is fyrir rúmri viku og fór þar ekki í grafgötur með álit sitt á ákæru Torstein Lindquister héraðssaksóknara í Troms og Finnmörk, sagði hana í grundvallaratriðum ranga þar sem ljóst væri að ásetningur Gunnars Jóhanns hefði ekki staðið til annars en að velgja hálfbróður sínum undir uggum og haglaskotið sem hæfði Gísla Þór í lærið hefði hlaupið af þegar hann greip til vopnsins í höndum hálfbróður síns og verið óviljaverk.

Larsen segir nokkuð öruggt að málinu verði áfrýjað til lögmannsréttar hver svo sem niðurstaðan verði í héraðsdómi. „Hann [Gunnar Jóhann] segir að um slys hafi verið að ræða sem mér þykir býsna erfitt að leggja trúnað á,“ segir Larsen, „að kalla það slys þegar þú kemur heim til [hálf]bróður þíns, reiður út í hann og með hlaðið skotvopn. Þá máttu einfaldlega reikna með því að eitthvað gerist. Þú kemur ekki með hlaðið skotvopn ef þú ætlar ekki að gera neitt,“ segir réttargæslumaðurinn.

Aðgangur ákærða að samfélagsmiðlum ólíðandi

Larsen, sem var einn þriggja réttargæslumanna um 60 eftirlifandi þolenda skotárásar Anders Behring Breivik í Utøya 22. júlí 2011, lætur þess sérstaklega getið að óbeinn aðgangur Gunnars Jóhanns að samfélagsmiðlum, þann tíma sem hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í fyrravor, sé með öllu ólíðandi og hafi reynst skjólstæðingi hennar þungur í skauti.

„Hann hefur fengið einhvern til að fara inn á Facebook-síðu hans og aðra samfélagsmiðla og birta þar efni og myndir sem hefur verið skjólstæðingi mínum ákaflega þungbært. Hann á ekki að hafa aðgang að þessum miðlum úr fangelsi og það er ólíðandi að rödd hans fái að heyrast þar. Ég hef ekki upplifað það áður að maður sem situr í fangelsi og bíður réttarhalda í sakamáli geti haldið úti óbeinni tjáningu á samfélagsmiðlum og það sé látið átölulaust,“ segir Mette Yvonne Larsen, réttargæslumaður í Mehamn-málinu, að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert